Lífið eldra en áður var talið

Vísindamennirnir að störfum á Grænlandi þar sem þeir fundu steingervingana.
Vísindamennirnir að störfum á Grænlandi þar sem þeir fundu steingervingana. AFP

Steingervingar sem ástralskir vísindamenn fundu við Grænlandsjökul benda til þess að lífið á jörðinni hafi kviknað aðeins nokkur hundruð milljón árum eftir að hún myndaðist. Aldursgreining bendir til þess að steingervingarnir séu 3,7 milljarða ára gamlir, um 220 milljón árum eldri en þeir sem áttu fyrra aldursmet.

Vísindamennirnir tilkynntu um uppgötvun sína í dag en þeir birta grein um hana í vísindaritinu Nature. Steingervingarnir nefnast mottuberg en það eru steingerðar leifar bláþörunga og setlaga. Þeir fundust eftir að þeir komu undan bráðnandi íshellunni á Suðvestur-Grænlandi. 

„Byggingin og lífefnafræðin úr útskotunum á Grænlandi sem hafa nýlega birst hafa öll þau einkenni sem menn hafa notað í yngra bergi til að færa rök fyrir líffræðilegum uppruna. Það bendir til þess að lífið hafi komið hratt fram á jörðinni,“ segir Martin Julian Van Kranendonk, jarðfræðingur og prófessor við Háskólann í Nýju Suður-Wales og einn höfunda greinarinnar.

Jörðin myndaðist fyrir um 4,5 milljörðum ára. Sé aldursgreiningin nákvæm var líf þegar byrjað að þrífast á henni þegar hún var aðeins 800 milljón ára gömul. Fram að þessu hafa elstu vísbendingar um líf á jörðinni verið taldar örsteingervingar sem fundust í Kanada árið 2006. Þeir eru taldir um 3,4 milljarða ára gamlir.

Gæti auðveldað leitina að lífi á Mars

Uppgötvunin gæti haft þýðingu fyrir leitina að mögulegu lífi á reikistjörnunni Mars. Þó að hún sé ryðguð eyðimörk í dag telja vísindamenn að þar hafi veri að finna fljótandi vatn og lofthjúp í fyrndinni. Hafi lífið verið komið fram svo snemma í sögu jarðarinnar gæti það haft tækifæri til að kvikna á Mars líka.

„Þýðingin fyrir Mars er að fyrir 3,7 milljörðum ára var Mars líklega ennþá blautur og hafði líklega ennþá úthöf og fleira þannig að ef líf þróaðist snemma á jörðinni til að geta myndað mottuberg þá gæti verið auðveldara að greina merki um líf á Mars,“ segir Allen Nutman frá Háskólanum Wollongong og aðalhöfundur rannsóknarinnar.

Í stað þess að leita að efnafræðilegum merkjum um líf á Mars væri hægt að leita að jarðfræðilegum myndunum eins og mottubergi á myndum sem sendar eru til jarðar.

Allen Nutman og Vickie Bennett frá Háskólanum í Wollongong sýna …
Allen Nutman og Vickie Bennett frá Háskólanum í Wollongong sýna mottuberg sem er talið 3,7 milljarða ára gamalt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert