Galaxy Note 7 tekinn úr sölu

Samsung Galaxy Note 7.
Samsung Galaxy Note 7. AFP

Suðurkóreski farsímaframleiðandinn Samsung hefur ákveðið að taka snjallsímann Galaxy Note 7 af markaði vegna þess að rafhlaða símans sprakk. Síminn kom á markað fyrir tæpum mánuði.

Samsung ætlar að bjóða þeim sem þegar hafa keypt símann að fá nýtt tæki. Forstjóri fyrirtækisins, Koh Dong-Jin, ræddi við fréttamenn í dag og greindi þar frá því að í nokkrum tilvikum hefði rafhlaða símans sprungið en síminn fór í almenna sölu 19. ágúst. Staðfest hefði verið að það væri einhver galli í rafhlöðu símans. 

Alls hefur selst ein milljón Galaxy Note 7 snjallsíma frá því síminn kom á markað.

Samsung Galaxy Note 7 var kynntur í byrjun ágúst en hann tekur við af Samsung Galaxy Note 5. Note 7 er ekki ólíkur S7 Edge-síma fyrirtækisins í útliti. Skjárinn er 5,7 tommur og segja gagnrýnendur að snjalltækið fari einstaklega vel í hendi en hönnunin er mjög dæmigerð fyrir Samsung, segir í umfjöllun um símann í Sunnudagsmogganum þegar hann kom á markað.

„Skjáupplausnin er 2560 x 1440 quad HD, svo þar er ekki mikið um nýjungar en örgjörvinn hefur verið uppfærður státar nú af octa-core 2.3GhZ quad + 1.6GHz quad. Þá kemur snjalltækið með 64GB minniskorti sem hægt er að stækka upp í 256GB. Hægt verður að opna tækið með augnskanna en hann er sagður virka einstaklega vel og er skemmtileg viðbót við öryggislæsingu tækisins. Eins er hægt að takmarka aðgang að einstaka forritum við notendur en þannig geta margir notað saman tækið án þess að eiga á hættu að verið sé að rugla stillingum í einstaka forriti eða hreinlega einhver að hnýsast í persónuleg gögn,“ segir ennfremur.

Samsung Galaxy Note 7.
Samsung Galaxy Note 7. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert