Slátra Jesú Kristi í sýndarveruleika

Áhorfendur fengu sýndarveruleikagleraugu til að upplifa ævi Jesú. Myndin er …
Áhorfendur fengu sýndarveruleikagleraugu til að upplifa ævi Jesú. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.

Gagnrýnendur fara ófögrum orðum um kvikmynd um ævi og störf Jesú Krists sem sögð er fyrsta myndin í fullri lengd sem byggir á sýndarveruleikatækni. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og gátu áhorfendur í snúningsstólum meðal annars fylgst með fæðingu og krossfestingu Jesú.

Kvikmyndin heitir „Jesús sýndarveruleiki, saga Krists“ [e. Jesus VR, The Story of Christ] og var tekin upp í 360 ° og 4k-upplausn. Gagnrýnendur fengu sýndarveruleikagleraugu þegar þeim var boðið að fá forsmekk af myndinni í nýju sýndarveruleikakvikmyndahúsi í Feneyjum þar sem hægt er að snúa sætunum svo að áhorfendur geti fylgst með því sem er að gerast alls staðar í kringum þá.

„Við sáum þetta ekki sem kvikmynd heldur sem leið til þess að ferðast aftur í tímann,“ segir Alex Barder, framleiðandi myndarinnar frá sýndarveruleikafyrirtækinu VRWERX.

Sátu í eldstæði á meðan Jesú þvoði fætur

Tæknin er hins vegar enn tiltölulega skammt á veg komin. Gagnrýnendurnir eru sagðir hafa orðið fyrir vonbrigðum með að í stað þess að ganga við hlið guðs kristinna manna hafi þeir sjónarhorn áhorfanda sem stendur eða situr álengdar spámanninum, sem þeim þótti heldur bragðdaufur í þokkabót.

Breska blaðið The Guardian skóf ekkert utan af því og sagði leikinn í myndinni skelfilegan og leikstjórnina hræðilega.

AFP-fréttastofan segir að myndgæðin hafi verið á pari við stækkaða mynd af snjallsímaskjá og því hafi hægur dauði Jesú á krossinum ekki einu sinni dugað til að fanga ímyndunarafl áhorfendanna. Sumir áhorfendur hafi misst athyglina þegar þeir veltu fyrir sér af hverju þeir virtust sitja í miðju eldstæði í kofa á meðan Jesú þvoði fætur.

Barder viðurkenndi að tæknin væri enn á frumstigi og varði efnisvalið. Markaðsrannsóknir í Bandaríkjunum hefðu sýnt að flestir hefðu nefnt ævi Jesú sem það tímabil í mannkynssögunni sem þeir vildu helst heimsækja.

Áætlað er að myndin verði frumsýnd í fullri lengd um jólin. Hún er um níutíu mínútur að lengd.

Jafnvel þjáningar Jesú á krossinum í sýndarveruleika dugðu ekki til …
Jafnvel þjáningar Jesú á krossinum í sýndarveruleika dugðu ekki til að fanga ímyndunarafl áhorfenda, að sögn AFP. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert