Geimiðnaðurinn nötrar eftir sprengingu

Falcon 9-eldflaug SpaceX hefur sig á loft. Tvær eldflaugar fyrirtæksins …
Falcon 9-eldflaug SpaceX hefur sig á loft. Tvær eldflaugar fyrirtæksins hafa nú sprungið á innan við 15 mánaða tímabili. AFP

Líklegt er að sprengingin í eldflaug SpaceX í vikunni þýði að viðskiptavinir fyrirtækisins sem áttu bókað far með því á næstu mánuðum þurfi að þola seinkun á áformum sínum. Hlutabréf í sumum þeirra hafa fallið og í Ísrael hafa menn áhyggjur af afdrifum geimiðnaðarins þar.

Nær öruggt er talið að SpaceX kyrrsetji Falcon 9-eldflaugar sínar á meðan verkfræðingar leita orsaka þess að ein þeirra sprakk í loft upp við hefðbundnar prófanir á skotpalli á Canaveral-höfða í gær. Fjarskiptagervitunglið Amos 6 frá ísraelska fyrirtækinu Spacecom fórst með eldflauginni.

Tafirnar af völdum óhappsins koma illa við fyrirtækin sem hafa ráðið SpaceX til að skjóta gervihnöttum á loft næstu mánuði. Þeirra á meðal er gervihnattasímafyrirtækið Iridium en fyrsta gervitunglið af tíu sem það ætlar að koma á braut um jörðina átti að þjóta á loft með Falcon 9-eldflaug síðar í þessum mánuði. Það verður af tekjum á meðan geimskotið tefst og féllu hlutabréf í fyrirtækinu á verðbréfamarkaði eftir sprenginguna.

SpaceX er einnig með samning við bandarísku geimvísindastofnunina NASA um birgðaflutninga til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. NASA hefur sagt að aðrir þjónustuaðilar séu í viðbragðsstöðu til að hlaupa í skarðið og að birgðastaðan í geimstöðinni sé góð eins og sakir standa.

Elon Musk, eigandi SpaceX, hefur stór áform fyrir fyrirtækið en …
Elon Musk, eigandi SpaceX, hefur stór áform fyrir fyrirtækið en þau þurfa að bíða á meðan leitað er orsaka sprengingarinnar í gær. AFP

Tryggingar eiga að duga fyrir nýju tungli

Ben Yisrael, stjórnarformaður ísraelsku geimstofnunarinnar ISA, segir að óhappið geti stefnt hundraða milljóna kaupum kínversku samsteypunnar Xinwei á Spacecom í hættu. Sá samningur er sagður háður því að gervitunglið verði tekið í notkun.

„Það eru stórar spurningar í kringum geimskotið og ég vona sannarlega að Spacecom sé nægilegt sterkt til að standa þetta af sér og panta nýtt gervitungl,“ segir Yisrael en Amos 6 er metið á 200-300 milljónir dollara að því er kemur fram í frétt AFP-fréttastofunnar.

Framleiðandi gervitunglsins, Israel Aircraft Industries, segir að Amos 6 hafi verið stærsta og fullkomnasta fjarskiptagervitungl sem smíðað hefur verið í Ísrael. Vísindaráðherra landsins er sagður ætla að boða til neyðarfundar um helgina til að ræða stöðuna.

David Zusiman sem var verkefnisstjóri við Amos 3 og 4 og kom að Amos 6 á fyrstu stigum verkefnisins segir að sprengingin hafi verið bakslag en hún sé ekki endilega stórslys. Hægt sé að panta nýjan gervihnött nú þegar með tryggingafénu sem á að dekka allan kostnað, þar á meðal við nýtt geimskot. Vandamálið sé að Amos 6 átti að leysa eldra gervitungl af hólmi, sem er komið til ára sinna.

„Viðskiptavinirnir sem keyptu aukna getu Amos 6 gætu orðið fyrir skaða vegna þess að þetta seinkar áformum þeirra um tvö til þrjú ár,“ segir Zusiman.

Dragon-birgðaflutningageimfar SpaceX leggur að Alþjóðlegu geimstöðinni.
Dragon-birgðaflutningageimfar SpaceX leggur að Alþjóðlegu geimstöðinni. AFP

Tilbúið fyrir mönnuð geimskot?

SpaceX er jafnframt með samning við NASA um að ferja geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Þær geimferjur eiga að vera knúnar með Falcon 9-eldflaugum og áttu fyrstu tilraunir með mönnuð geimskot að hefjast eftir átján mánuði.

Johnathan Amos, aðalvísindafréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC, spyr í grein um sprenginguna hvort þessar áætlanir SpaceX standist í ljósi óhappsins. Hann bendir á að þetta sé önnur eldflaug fyrirtækisins sem springur í loft upp á innan við fimmtán mánuðum. Falcon 9-eldflaug sprakk í loft upp skömmu eftir geimskot í júní í fyrra.

Líklegt sé að óhappið hafi áhrif á tilraunir SpaceX til að fá bandaríska varnarmálaráðuneytið til að treysta fyrirtækinu fyrir verkefnum sem varða þjóðaröryggi. Ef marka má reynsluna frá því í fyrra segir Amos að SpaceX muni leggja allt annað til hliðar á meðan orsaka sprengingarinnar í gær er leitað til að hægt verði að koma Falcon 9-eldflaugunum sem fyrst á loft aftur.

Umfjöllun BBC um afleiðingar sprengingarinnar hjá SpaceX

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert