Deila höfuðkúpum á netinu

Ein af höfuðkúpunum úr flaki Mary Rose.
Ein af höfuðkúpunum úr flaki Mary Rose. AFP

Breskir fornleifafræðingar birtu í dag þrívíddarmyndir af höfuðkúpum sem fundust í flaki enska herskipsins Mary Rose sem sökk árið 1545 út af ströndum Englands. Flakið fannst upphaflega árið 1971 og var leifum þess bjargað af hafsbotni rúmum áratug síðar.

Herskipið var flaggskip enska flotans á þeim tíma og fórst í sjóorrustunni við Solent þar sem Englendingar vörðust frönskum innrásarflota. Þáverandi konungur Englands, Hinrik VIII., fylgdist með orrustunni úr landi og er sagður hafa grátið þegar Mary Rose sökk. Tilraunir voru gerðar í kjölfarið til þess að lyfta flakinu af hafsbotni en án þess að það skilaði árangri.

Frá þessu er greint í frétt AFP en birtar hafa verið gagnvirkar þrívíddarmyndir af tíu höfuðkúpum ásamt ýmsum munum sem fundust í flakinu. Þar á meðal höfuðkúpu trésmiðs skipsins og verkfærum hans. Markmiðið er að gera fræðimönnum og öðrum um allan heim kleift að rannsaka munina í gegnum netið án þess að þurfa að vera þar sem þeir eru staðsettir.

Vonir standa til þess að hægt verði í framhaldinu að draga upp þrívíddarmyndir af beinagrindum einhverra af þeim 500 mönnum sem fórust með herskipinu. Ekki er vitað hvað beinlínis olli því að skipið fórst en það lagðist skyndilega á hliðina í orrustunni. Þúsundir muna úr flakinu eru til sýnis á safni í borginni Portsmouth sem sérstaklega var sett á laggirnar í kringum flakið.

Diskar sem fundust í flakinu.
Diskar sem fundust í flakinu. AFP
Fallbyssa úr flakinu.
Fallbyssa úr flakinu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert