Tengja Alzheimers við loftmengun

Vísindamenn tengja málmagnir í heilum sem þeir skoðuðu við loftmengun.
Vísindamenn tengja málmagnir í heilum sem þeir skoðuðu við loftmengun. AFP

Hópur vísindamanna sem skoðaði sýni úr mannsheilum fann málmagnir sem líkjast þeim sem losna með útblæstri frá bílum og iðnaði. Vísindamennirnir telja mögulegt að agnirnar geti aukið líkurnar á Alzheimerssjúkdóminum. Niðurstöðurnar eru þó ekki sagðar afgerandi.

Þegar vísindamennirnir frá Bretlandi, Mexíkó og Bandaríkjunum gerðu segulrannsóknir á frosnum heilavef úr 37 manneskjum sem voru á aldrinum þriggja til 92 ára fundu þeir smáar agnir seguljárnsteins sem voru frábrugðnar þeim sem heilinn myndar náttúrulega. Þær líktust frekar þeim sem myndast við bruna eldsneytis og eru í loftmengun frá bílum, verksmiðjum og matareldun innandyra.

Í grein í tímariti bandarísku vísindakademíunnar benda þeir á að fyrri rannsóknir hafi sýnt að fylgni er á milli magns seguljárns í heila og tíðni Alzheimers. Skoða þurfi hvort að loftmengun af þessu tagi sé mögulega skaðleg fyrir heilsu manna.

Sérfræðingar sem áttu ekki þátt í rannsókninni segja að hún leggi ekki fram endanlegar sannanir fyrir því að agnirnar hafi komið úr loftmengun eða að þær hafi eitthvað með Alzheimerssjúkdóminn að gera.

Peter Dobson við King's College í London segir ekki hægt að fullyrða að agnirnar valdi Alzheimers en þær séu engu að síður áhyggjuefni því seguljárnsagnir hafi verið tengdar við aðra sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma og lungnasjúkdóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert