„Erum að sýkja heimshöfin“

AFP

Hlýnun jarðar hefur orðið til þess að heimshöfin eru „sjúkari“ en nokkru sinni fyrr, stuðlar að útbreiðslu sjúkdóma í dýrum og mönnum og ógnar matvælaöryggi í heiminum. Áttatíu vísindamenn frá tólf löndum komast að þessari niðurstöðu í nýrri skýrslu sem byggist á umfangsmestu rannsókninni til þessa á áhrifum hlýnunarinnar á höfin.

Einn höfunda skýrslunnar, Dan Laffoley, segir að höfin hafi tekið til sín rúm 93% af hlýnuninni af völdum loftslagsbreytinga í heiminum frá áttunda áratug aldarinnar sem leið og það hafi haft mikil áhrif á lífríki sjávar.

Ógnar heilsu manna

Rannsóknin náði til allra helstu þáttanna í lífríkinu, allt frá örverum til hvala. Meðal annars kemur fram að svif, marglyttur og sjófuglar hafa færst um allt tíu breiddargráður í áttina að kaldari sjó við heimskautin. Laffoley telur að þessi tilfærsla í höfunum sé 1,5 til fimm sinnum hraðari en tilfærslan á lífverum á landi. „Við erum að breyta árstíðunum í höfunum,“ hefur fréttaveitan AFP eftir honum.

Hlýnunin ýtir undir súrnun sjávar og verður einnig til þess að sýkjandi örverur herja á stærri svæði í heimshöfunum. Vísindamennirnir segja að fram hafi komið vísbendingar um að hlýnun sjávar sé byrjuð „að valda auknum sjúkdómum í plöntum og dýrum“. Eitraður þörungagróður, sem getur valdið taugasjúkdómum, og sýklar á borð við gerla sem valda kóleru berast hraðar út í hlýjum sjó og hlýnunin hefur því bein áhrif á heilsu manna, að sögn vísindamannanna.

Minnkar matvælaöryggi

Hlýnun sjávar hefur einnig stuðlað að því að kóralrif eyðast nú hraðar en nokkru sinni fyrr og heimkynni fiska eyðileggjast. Þetta hefur orðið til þess að ákveðnir fiskstofnar hafa minnkað og dregið úr matvælaöryggi. „Gert er ráð fyrir því að sjávaraflinn minnki um 10-30 af hundraði í Suðaustur-Asíu fyrir árið 2050, miðað við árin 1970-2000, vegna breytinga á dreifingu fisktegunda,“ segir í skýrslunni.

„Við vitum öll að höfin halda lífinu á jörðinni gangandi,“ hefur AFP eftir Inger Andersen, framkvæmdastjóra alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN. „Samt erum við að sýkja höfin.“

Vísindamenn segja niðurstöður skýrslunnar staðfesta þörfina á því að auka sem fyrst notkun endurnýjanlegra orkugjafa. 

AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert