Pandora semur við útgáfurisa

Tim Westergren, forstjóri Pandora Media.
Tim Westergren, forstjóri Pandora Media. AFP

Netútvarpsstöðin Pandora ætlar sér að verða stór leikmaður á sviði tónlistarefnisveita en stöðin hefur gengið frá samningum við útgáfurisana Universal og Sony Music. Samningarnir gera Pandora kleift að bjóða upp á svonefnda „on-demand“-tónlist líkt og Spotify og Apple Music bjóða upp á.

Fyrr í mánuðinum greindi The New York Post frá því að Pandora hefði til skoðunar að fara af stað með slíka efnisveitu sem kostaði fimm bandaríkjadali á mánuði. Með því væru þeir að undirbjóða Spotify sem rukka meira fyrir svonefndan premium-aðgang, þ.e. aðgang án auglýsinga auk ýmissa fríðinda sem því fylgja að borga fyrir þjónustuna.

Í tilkynningu sem Pandora sendi frá sér er ekki greint frá áformum fyrirtækisins en þar segir að ætlunin sé að kynna nýjar vörur til sögunnar sem byggja á áskriftarþjónustu.

Notendur Pandora eru tæplega 80 milljónir talsins að því er fram kemur í frétt AFP um málið. Notendur Spotify voru 100 milljónir talsins í júní en 30 milljónir þeirra greiða fyrir áskriftina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert