Súrnun sjávar gæti ógnað þorski

Súrnun sjávar gæti haft veruleg áhrif á lífsbaráttu þorsklifra, samkvæmt …
Súrnun sjávar gæti haft veruleg áhrif á lífsbaráttu þorsklifra, samkvæmt nýrri rannsókn. mbl.is/RAX

Þorskur gæti verið viðkvæmari fyrir súrnun sjávar en talið hefur verið. Ný rannsókn þýskra vísindamanna bendir til þess að dánartíðni þorsklirfa aukist um allt að fjórðung við þær aðstæður sem spáð er að verði í hafinu við aldamótin. Íslenskur sjávarlíffræðingur segir niðurstöðurnar sláandi.

Auk þess að hlýna eru höf jarðar að súrna vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Sjórinn tekur upp koltvísýring úr andrúmsloftinu og sýrustig hans lækkar. Vísindamenn hafa haft áhyggjur af því að þessi súrnun sjávar hafi skaðleg áhrif á skeldýr eins og átu og ýmis krabbadýr.

Rannsókn þýsku vísindamannanna fyrir Nofima, norska rannsóknastofnun á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og matvæla, bendir hins vegar til þess að stærri lífverum eins og þorskinum stafi einnig hætta af súrnun sjávar. Vísindamennirnir ólu þorsklirfur úr tveimur ótengdum stofnum úr Barentshafi og Eystrasalti við sýrustig sem spálíkön benda til að verði til staðar í höfum jarðar árið 2100. Niðurstaðan var sú að dánartíðni lirfanna jókst um 8-24%.

Undirstrikar mikilvægi loftslagsaðgerða

Hrönn Egilsdóttir, sjávarlíffræðingur sem rannsakar áhrif súrnunar sjávar á lífverur við Ísland, segir rannsóknina fyrst og fremst merkilega fyrir þær sakir að fyrri rannsóknir hafi almennt sýnt að fullorðnir fiskar séu ekki sérlega viðkvæmir fyrir súrnun.

„Þess vegna var almennt talið að fiskar væru almennt ekki svo viðkvæmir. Hins vegar hafa nýjustu rannsóknir á fiskum verið gerðar á lirfustigum og hafa bent til þess að bein áhrif súrnunar á fiska geti komið fram hjá ungviði,“ segir hún.

Þessi áhrif geti meðal annars komið fram á lyktarskyni, hegðun og myndun vefjar. Grein um rannsóknina birtist í vísindavefritinu PLOS One.

Þorskurinn er ein mikilvægasta útflutningsafurð Íslendinga.
Þorskurinn er ein mikilvægasta útflutningsafurð Íslendinga. mbl.is/ÞÖK

Hrönn bendir á að þegar niðurstöður tilrauna sem sýndu fram á aukna dánartíðni lirfa voru teknar til greina í líkani sem reiknar nýliðun í þorskstofnunum gaf það til kynna að við þessar framtíðaraðstæður minnkaði nýliðun um fjórðung vegna súrnunar sjávar í Barentshafi. Það sé afar hátt hlutfall.

Rannsóknin er hins vegar ekki gallalaus. Hrönn segir að betra hefði verið ef foreldrar lifranna hefðu verið aldir við sömu aðstæður og þær en það hefði þýtt töluvert flóknari, stærri og dýrari tilraun.

„Þrátt fyrir þessa vankanta eru niðurstöðurnar nokkuð sláandi og gefa fullt tilefni til þess að undirstrika mikilvægi þessara aðgerða í loftslagsmálum sem þurfa nú að fara í gang,“ segir Hrönn.

Engin leið undan súrnuninni

Súrnun sjávar sem fylgifiskur stórfelldrar losunar manna á koltvísýringi með bruna á jarðefnaeldsneyti er á ýmsan hátt erfiðari viðureignar en hlýnunin sem er að verða í höfunum af sömu orsökum.

Talið er að sjávarlífverur geti að einhverju marki fært sig um set til að forðast hlýnun hafsins. Hrönn nefnir sem dæmi að humar við austurströnd Bandaríkjanna hafi fært sig norður á bóginn og hugsanlegt sé að makríll hafi leitað til Íslands vegna hlýnunar sunnar í hafinu.

Þegar kemur að súrnun sjávar geta lífverurnar hins vegar ekki stokkið á flótta á sama hátt og þær færa sig vegna hlýnunar.

„Þetta eru allt öðruvísi breytingar. Það er ekki þannig að lirfurnar geti flúið eitt né neitt. Aðstæðurnar í umhverfi þeirra munu breytast,“ segir hún.

Hrönn Egilsdóttir, sjávarlíffræðingur.
Hrönn Egilsdóttir, sjávarlíffræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Vandamálið er enn meira aðsteðjandi í hafinu kringum Ísland en sunnar í höfum. Kaldur sjór tekur meira upp af koltvísýringi úr andrúmsloftinu en hlýrri. Þannig hafa athuganir sýnt að súrnun hafsins, sérstaklega norðan við Ísland, gangi um 50% hraðar en sunnar í Atlantshafi.

Hrönn segir ómögulegt að segja hvaða þýðingu súrnunin getur haft fyrir fiskistofna Íslendinga. Rannsóknin gefi hins vegar ærið tilefni til þess að huga að súrnun sjávar við rannsóknir á þróun fiskistofna til framtíðar.

„Þetta þarf að skoða miklu betur en það er ljóst að bein áhrif súrnunar á fiskistofna gætu komið fram til lengri tíma litið,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert