Fáir vilja skipta og fá nýjan síma

Raftækjarisinn Samsung hóf í dag að bjóða nýja Galaxy Note 7 síma í stað þeirra milljóna sem voru afturkallaðir, en rafhlöður þeirra hafa verið gjarnar til að ofhitna. Aðeins örfáir viðskiptavinir virðast þó hafa nýtt tækifærið til að skipta um síma, það sem af er degi í Suður-Kóreu.

Þessi stærsti farsímaframleiðandi heims afturkallaði 2,5 milljónir síma af þessari nýjustu gerð fyrir rúmum tveimur vikum, eftir að kviknað hafði eldur í rafhlöðum margra eintaka á meðan hleðslu stóð.

Fram til þessa hafa neytendur að mestu virt að vettugi tilboð Samsung, um annan síma að láni þar til nýir Note-símar koma úr framleiðslu, og áhugaleysið virðist halda áfram miðað við viðtökur nýju símanna í dag.

Talið er að góður árangur afturköllunarinnar sé fyrirtækinu afar mikilvægur, svo neytendur haldi tryggð við vörumerkið og gangist ekki á hönd Apple eða ódýrari kínverskra framleiðenda.

Frétt mbl.is: Afturkalla eina milljón síma

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert