Hafísinn við sögulegt lágmark

Hvítabjörn reynir burðarþol vakar á Norðurheimsskautinu þar sem hafísinn hefur …
Hvítabjörn reynir burðarþol vakar á Norðurheimsskautinu þar sem hafísinn hefur verið við sögulegt lágmark í sumar. AFP

Lágmarksútbreiðsla hafíssins á norðurskautinu hefur aðeins einu sinni mælst minni en nú. Mælingar bandarísku Snjó- og ísgagnamiðstöðvarinnar benda til þess að hafísinn hafi náð lágmarki sínu eftir sumarið fyrir viku og náði hann þá yfir 4,14 milljón ferkílómetra svæði, örlitlu meira en metárið 2012.

Gervihnattaathuganir sýna að lágmarkið í ár er nærri því 2,56 milljón ferkílómetrum minna en meðaltal áranna 1979 til 2000. Það jafngildir flatarmáli Alaska og Texas samanlagt. Mark Serreze, forstöðumaður Snjó- og ísgagnamiðstöðvarinnar, segir að lágmarkið í ár sé um 10.000 ferkílómetrum minna en árið 2007 en svo litlu muni á árunum tveimur að þau séu í raun jöfn.

Þrátt fyrir að met hafi ekki verið slegið að þessu sinni segir Serreze að mælingarnar nú staðfesti áframhaldandi hnignun hafíssins vegna hnattrænnar hlýnunar. Engar vísbendingar séu um að ísinn sé að taka við sér.

„Við höfum alltaf vitað að norðurheimskautið yrði fyrirboði loftslagsbreytinga. Það sem við höfum séð á þessu ári festir það í sessi,“ segir hann.

Árið í ár hefur verið óvenjulegt fyrir hafísinn. Útbreiðsla íssins í vetur var ein sú minnsta sem mælst hefur á þeim árstíma en sumarið hefur verið stormasamara en venjulega. Það þýðir venjulega svalari aðstæður, en Serreze segir að það hafi ekki aftrað bráðnuninni. Þetta bendi til þess að veðurfar að sumri hafi ekki eins mikil áhrif á ástand hafíssins og áður.

Serreze segir jafnframt að það kæmi honum ekki á óvart að norðurskautið væri orðið hafíslaust að mestu leyti sumarið 2030.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert