NASA boðar „óvænta“ uppgötvun á Evrópu

Vísindamenn telja að haf fljótandi vatns leynist undir ísilögðu yfirborði …
Vísindamenn telja að haf fljótandi vatns leynist undir ísilögðu yfirborði Evrópu. ljósmynd/NASA

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA ætlar að kynna nýja uppgötvun sem vísindamenn hafa gert með Hubble-geimsjónaukanum á Evrópu, ístungli Júpíters, á mánudag. Hún er sögð tengjast óvæntri virkni sem gæti tengst neðanjarðarhafi sem talið er leynast undir ísskorpu tunglsins.

Möguleg tilvist fljótandi vatns undir yfirborðinu á Evrópu hefur gefið mönnum vonir um að Galíleótunglið geti mögulega hýst líf. Talið er að meira magn fljótandi vatns sé að finna á Evrópu en á jörðinni þrátt fyrir að tunglið sé mun minna. Vísindamenn telja að neðanjarðarhafið þar gæti verið í snertingu við bergmöttul Evrópu sem opni á möguleikann á alls kyns áhugaverðum efnahvörfum.

Á vefnum Space.com segir að ekki hafi verið greint nánar frá uppgötvuninni sem á að kynna í tilkynningu sem NASA sendi fjölmiðlum í gær. Aðkoma Hubble-geimsjónaukans að uppgötvuninni þykir hins vegar gefa vísbendingar um að menn hafi aftur komið auga á stróka sem koma upp úr glufum á yfirborðinu.

Sjónaukinn kom auga á það sem virtust vera strókar vatnsgufu sem teygðu sig allt að 200 kílómetra upp frá suðurpól Evrópu árið 2012. Sú uppgötvun vakti mikla athygli því ef fundur strókanna yrði staðfestur gæti það þýtt að hægt væri að rannsaka neðansjávarhafið án þess að þurfa að lenda geimfari á yfirborði tunglsins.

Frétt Space.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert