Bráðnun Grænlandsjökuls mögulega vanmetin

Gríðarleg bráðnun á sér stað á Grænlandsjökli vegna hnattrænnar hlýnunar …
Gríðarleg bráðnun á sér stað á Grænlandsjökli vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. mbl.is/Rax

Fyrri rannsóknir gætu hafa vanmetið bráðnun Grænlandsjökuls um allt að tuttugu milljarða tonna á ári og jökullinn gæti því verið að bráðna mun hraðar en talið hefur verið fram að þessu. Höfundar nýrrar rannsóknar segja mögulegt að forsendur fyrri áætlana um landris gætu verið rangar.

Mikil bráðnun á sér stað á Grænlandsjökli vegna hnattrænnar hlýnunar. Vísindamenn styðjast aðallega við mælingar gervihnatta til að meta hversu miklum ís jökullinn tapar. Í nýrri rannsókn sem birt er í tímaritinu Science Advances er því hins vegar haldið fram að vísindamenn hafi gefið sér rangar forsendur um landris þegar þeir hafa túlkað gervihnattagögnin. Það hafi orðið þess valdandi að bráðnunin hafi verið vanmetin um 7,5%.

Þegar jöklar hopa hneigist landið sem var undir þeim til að rísa þegar farganinu hefur verið létt af því. Gervihnettirnir sem rannsaka íshelluna skoða breytingar á yfirborði jarðar og því þarf að taka tillit til jarðrisins.

Athuganir sem höfundar rannsóknarinnar gerðu með GPS-nemum á Grænlandi leiddu þá til þeirrar ályktunar að líkanið sem þeir höfðu notað til að túlka gervihnattagögnin væri ekki nógu nákvæmt. Vísa höfundarnir sérstaklega til mælinga GRACE-gervitunglanna sem meta ístapið út frá breytingum á þyngdarkraftinum sem þau merkja frá braut um jörðu.

„Það sem GRACE mælir er breytingar á massa en það getur ekki sagt þér muninn á ísmassa og bergmassa. Þess vegna verður að búa til líkan og líkanið sem við vorum að nota var ekki alveg rétt,“ segir Michael Bevis, jarðeðlisfræðingur við Ríkisháskólann í Ohio sem er einn höfunda greinarinnar.

Sömu jöklarnir bráðnað í þúsundir ára

Hluti af ástæðunni fyrir því að fyrri líkön voru röng er sagður heitur reitur sem var undir Grænlandi fyrir milljónum ára en hefur síðan færst undir Ísland. Hann olli breytingum á möttlinum undir Grænlandi og lét hann hreyfast á mismunandi hátt undir yfirborðinu. Ef ekki var tekið tillit til áhrifa heita reitsins reyndust eldri líkön röng, að sögn vísindamannanna.

Bevis bendir á að þó að 20 milljarðar tonna af ís hljómi mikið þá nemi leiðréttingin sem hann og félagar hans leggja til aðeins 7,5%. Ian Joughin, jöklafræðingur við Háskólann í Washington sem kom ekki að rannsókninni, segir við Washington Post að niðurstöður Bevis og félaga séu innan óvissumarka margra fyrri gervihnattarannsókna.

Mikilvægasta niðurstaða rannsóknarinnar segir Bevis hins vegar vera þá að endursköpun þeirra á jarðsögu Grænlands sýni að tiltölulega fáir jöklar hafi bráðnað mest í mörg þúsund ár. Sú niðurstaða gæti hjálpað vísindamönnum að spá betur fyrir um framtíð íshellunnar á Grænlandi.

Umfjöllun Washington Post um rannsóknina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert