NASA „breytti“ ekki stjörnumerkjunum

NASA bendir á að enginn hafi sýnt fram á að …
NASA bendir á að enginn hafi sýnt fram á að stjörnuspeki geti spáð fyrir um framtíðina eða sagt til um skapgerð fólks út frá fæðingardegi þess. mbl.is/AFP

Skelfing greip um sig á meðal þeirra sem leggja trúnað í stjörnuspár þegar orðrómur fór á kreik um að NASA hefði „breytt“ stjörnumerkjunum með þeim afleiðingum að 86% fólks væri ekki lengur í því stjörnumerki sem það taldi. Greip NASA á það ráð að bera orðróminn til baka og útskýra að stjörnuspeki væri ekki vísindi.

Þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að staðsetning sólarinnar gagnvart stjörnuhimninum frá jörðinni séð hafi þýðingu fyrir skapgerð fólks eða spágildi um framtíðina eru enn til einstaklingar sem fylgjast grannt með stjörnuspám sem birtast meðal annars í dagblöðum og tímaritum. Þeim brá því nokkuð í brún þegar sögusagnir fóru á kreik í síðustu viku um að bandaríska geimvísindastofnunin hafi einhliða breytt stjörnumerkjunum.

Breska ríkisútvarpið BBC rekur uppruna orðrómsins til greinar sem birtist í lífstílstímaritinu Cosmopolitan þar sem fjallað var um grein á vefsíðu NASA sem ætluð var börnum um uppruna stjörnumerkjanna hjá Babýlóníumönnum fyrir um þrjú þúsund árum. Þar kom fram að afstaða stjarnanna á himninum hafi breyst á þeim þúsöldum sem síðan eru liðnar.

Cosmopolitan virðist hafa túlkað þá augljósu fullyrðingu sem svo að NASA hefði breytt dagsetningum stjörnumerkjanna. Þá taldi tímaritið að NASA væri að segja að þrettánda stjörnumerkið naðurvaldi væri aftur komið í gildi.

Stjörnuhimininn hefur „hliðrast“ á þúsundum ára

Orðrómurinn fór á slíkt flug að NASA kaus að svara honum á Tumblr-síðu sinni. Þar kemur fram að stofnunin hafi svo sannarlega ekki hróflað við stjörnumerkjunum.

„Við breyttum engum stjörnumerkjum, við gerðum bara útreikninga. NASA sagði frá því að vegna þess að möndull jarðar hefur breyst þá eru stjörnumerkin ekki lengur á sama stað og fyrir þúsundum ára,“ segir Laurie Cantillo frá NASA við BBC.

Í kenningunni ræðst stjörnumerki fólks af því í hvaða stjörnumerki sólin var séð frá jörðinni daginn sem það fæddist. Í grein NASA segir hins vegar að Babýlóníumennirnir hafi upphaflega verið með þrettán stjörnumerki. Þegar þeir skiptu dýrahringnum upp í tólf merki hafi þeir haft hvert þeirra jafnstórt jafnvel þó að sólin dvelji alls ekki jafnlengi í hverju þeirra.

Þannig sé sólin í 45 daga í meyjunni en aðeins sjö daga í sporðdrekanum. Þar við bætist að á 3.000 árum hefur stjörnuhimininn hliðrast aðeins vegna þess að möndull jarðar bendir ekki lengur á nákvæmlega á sama stað.

Kort sem sýnir kortið stjörnuhimininn yfir Íslandi að vori. Mynd …
Kort sem sýnir kortið stjörnuhimininn yfir Íslandi að vori. Mynd fengin af Stjörnufræðivefnum.

Við þetta bætist að sólin gengur í gegnum þrettánda stjörnumerkið. Niðurstaðan er sú að í nútímanum eru „raunveruleg“ stjörnumerki fólks í flestum tilfellum önnur en þau sem hefðbundin stjörnuspeki segir til um. 

„Stjörnufræði er vísindaleg rannsókn á öllu í geimnum. Stjörnufræðingar og aðrir vísindamenn vita að stjörnur í margra ljósára fjarlægð hafa engin áhrif á daglegt líf fólks á jörðinni. Stjörnuspeki er eitthvað annað. Hún er ekki vísindi. Enginn hefur sýnt fram á að stjörnuspeki megi nota til að spá fyrir um framtíðina eða lýsa því hvernig fólk er út frá fæðingardegi þess,“ segir í færslu NASA.

Á Stjörnufræðivefnum má svo finna upplýsingar um raunverulegar dagsetningar dýrahringsins með stjörnumerkjunum þrettán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert