Stærsti útvarpssjónauki heims tekinn í gagnið

FAST-útvarpssjónaukinn í Kína er stærsti útvarpssjónauki í heimi.
FAST-útvarpssjónaukinn í Kína er stærsti útvarpssjónauki í heimi. AFP

Kínverjar tóku nýjan útvarpssjónauka sem er sá stærsti í heimi í notkun í suðvesturhluta landsins í dag. Sjónaukinn er fimm hundruð metrar að þvermáli og á að leita að merkjum um vitsmunalíf utan jarðarinnar og fylgjast með fjarlægum tifstjörnum.

FAST-útvarpssjónaukinn situr á milli hæða í fjalllendi Guizhou-héraðs og kostaði um 180 milljónir dollara. Hann er mun stærri en Arecibo-útvarpssjónaukinn í Púertó Ríkó, tvöfalt næmari og spegill hans er á stærð við þrjátíu fótboltavelli.

Ríkisfjölmiðlar greina frá því að þegar sjónaukinn var prófaður hafi hann numið rafsegulbylgjur frá tifstjörnu í meira en 1.300 ljósára fjarlægð. Wu Xiangping, formaður Kínverska stjörnufræðifélagsins, segir að mikil næmni sjónaukans muni „hjálpa okkur að leita að lífi utan vetrarbrautarinnar“.

Hafist var handa við að byggja FAST árið 2011 og voru um tíu þúsund manns sem bjuggu í innan við fimm kílómetra frá honum færðir um set til að rýma til fyrir honum. Slökkva þarf á farsímum í nágrenni sjónaukans til þess að viðhalda útvarpsþögn. Þorpsbúar eru sagðir fá reiðufé eða annað húsnæði í staðinn.

Þó að sjónaukinn sé í heild 500 metrar að þvermáli þá eru aðeins 300 metrar notaðir til athugana hverju sinni. Spegill sjónaukans er samsettur úr 4.450 flekum.

Uppfært 26.9.2016 Upphaflega stóð í fréttinni að Arecibo-útvarpssjónaukinn væri í Kosta Ríka en hið rétta er að hann er í Púertó Ríkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert