Gabbaði eigendur iPhone 7

Glænýr iPhone 7.
Glænýr iPhone 7. AFP

Vinsælt myndband hrekkjalóms á YouTube sem sýnir þegar borað er í nýjan iPhone 7-síma til að búa til innstungu fyrir heyrnartól hefur orðið til þess að auðtrúa netverjar hafa eyðilagt símana sína, miðað við það sem lesa má úr ummælum þeirra. 

Í myndbandinu kemur fram að leyniinnstunga sé í símanum fyrir heyrnartól en iPhone 7 fór í sölu fyrr í mánuðinum án innstungunnar.

Frétt mbl.is: Hvarf innstungu kom ekki að sök

iPhone 7 er fyrsta útgáfa símans sem er ekki með innstungu fyrir heyrnartól.  Nú eru heyrnartól tengd við símann með Bluetooth- eða Lightning-tengi sem tengt er við símann á sama stað og hleðslusnúran.

Úkraínski hrekkjalómurinn Taras Maksimuk, sem kallar sig TechRax, setti myndband á YouTube sem tæplega 10 milljónir manna hafa séð, að því er London Evening Standard greindi frá. 

Þar sést maður bora 3,5 millimetra holu neðst vinstra megin í iPhone 7-síma. Fólk er talið trú um að leyniinnstungan finnist með því að bora í annað af götunum sem þar eru.

Einhverjir auðtrúa notendur iPhone hafa kvartað yfir myndbandinu við Maksimuk. Einn sagði: „AppleCare getur ekki bætt þetta, takk fyrir kærlega.“

Annar setti inn þessi ummæli: „Hjálp! Núna passa gömlu heyrnartólin við en síminn virkar ekki lengur!“.

Einn reiður netverji til viðbótar skrifaði: „Skjárinn minn varð svartur um leið og ég byrjaði að bora og núna get ég ekki einu sinni kveikt á honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert