Musk vill milljón manna borg á Mars

Elon Musk, forstjóri SpaceX og stofnandi Tesla, horfir til þess …
Elon Musk, forstjóri SpaceX og stofnandi Tesla, horfir til þess að senda fólk til Mars á næstu árum. AFP

Frumkvöðullinn og forstjóri geimferðafyrirtækisins SpaceX Elon Musk vill byggja borg á reikistjörnunni Mars og á kostnaður við hvern einstakling að vera um 100 þúsund dalir. Þetta kom fram í ræðu Musk á ráðstefnu Alþjóða  geimferðastofnunarinnar í Mexíkó í dag. Vill Musk flytja 100 manns í hverri ferð sem tekur frá 80 upp í 150 daga. Segir hann að þegar ein milljón manna verði komin til Mars verði hægt að tala um sjálfbæra nýlendu á reikistjörnunni rauðu.

Musk áætlar að með 20 til 50 ferðum á ári taki um 40 til 100 ár að ná upp í eina milljón íbúa á Mars, en SpaceX áætlar að senda fyrstu ómönnuðu geimförin til Mars strax árið 2018. Horfir Musk til þess að fyrstu mönnuðu geimförin haldi frá Jörðinni árið 2024 og lendi á Mars ári síðar.

Í kynningu Musk í kvöld kom fram að hann sæi fyrir sér að geimfarið tæki fyrst á loft með farþega, en eldflaugin sjálf sem kæmi geimfarinu á loft myndi vera endurnotað nokkrum sinnum til að sækja eldsneyti og væri fyllt á tanka geimfarsins í geimnum. Telur Musk að það gæti þurft frá þremur upp í fimm skipti til að fylla geimflaugina fyrir flugið til Mars.

Mars er næsti áfangastaður í huga Elon Musk.
Mars er næsti áfangastaður í huga Elon Musk. AFP

Hluti af áætlun Musk er að notast við endurnýtanleg geimför, en með því segir hann að hægt sé að lækka kostnað umtalsvert. Benti hann í fyrirlestri sínum að í dag mætti áætla að kostnaður við að koma einum manni til Mars væri um 10 milljarðar dala og því þyrfti verðið að lækka mikið svo það væri á færi almennings að flytjast til Mars. Þá byggir áætlun hans einnig á því að reist verði orkuver á Mars svo ekki þurfi að flytja eldsneyti frá Jörðinni til að geta komist til baka. Segir Musk þetta lykilinn að lægra verði.

Musk tók fram að til að verkefnið gæti gengið upp þyrfti risasamstarf milli hins opinbera og einkaaðila.

Í fjarlægri framtíð segist Musk vonast til þess að ferðatíminn til Mars fari niður í 30 daga.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert