Nóbelsverðlaunin í læknisfræði til Japans

Japanski frumulíffræðingurinn Yoshinori Ohsumi hlaut í dag Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir rannsóknir sínar á sjálfsáti. Það er ferli þegar frumur éta sig sjálfar - sem getur ef ferlið er rofið - valdið Parkinsons og sykursýki.

Við sjálfsát losa frumur sig við gölluð prótín og úr sér gengin frumulíffæri. Þannig myndast byggingarefni sem stuðla að vexti og viðgangi frumunnar þrátt fyrir óhagstæð ytri skilyrði.

Rannsóknir Ohsumi breyttu miklu hvað varðar gang rannsókna á sjálfsáti en hann notaði ger við rannsóknirnar sem sýndi svipað ferli og var við sjálfsát í frumum mannslíkamans. Með þessu tókst honum að sýna fram á breytingar sem áður voru óþekktar en eiga sér stað í frumum mannslíkamans. Til að mynda hvernig sjálfsátið hefur áhrif á framgang sjúkdóma eins og krabbameins og taugasjúkdóma.

Ohsumi, sem er 71 árs, lauk doktorsnámi frá háskólanum í Tókýó árið 1974. Hann er prófessor í Tókýó. Hann hlýtur 8 milljónir sænskra króna í verðlaun.

Yoshinori Ohsumi
Yoshinori Ohsumi AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert