„Opnuðu dyr að óþekktum heimi“

Þrír Bretar hljóta Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í ár fyrir uppgötvanir sínar í þéttefnisfræði og segir í niðurstöðu dómnefndar að með uppgötvun sinni hafi þeir opnað dyr að óþekktum heimi.

Eðlisfræðingarnir David Thouless, Duncan Haldane og Michael Kosterlitz skipta með sér verðlaunafénu 8 milljónum sænskra króna.

Á Vísindavefnum kemur fram að þéttefnisfræði (e. condensed matter physics) er stærsta undirsvið nútíma eðlisfræði og miðar að því að athuga og útskýra stórsæja (e. macroscopic) eiginleika "þéttra" efna, það er að segja fastra efna og vökva. Hér er oftast um að ræða kristölluð efni eins og málma, hálfleiðara eða ofurleiðara, einangrandi kristalla eins og demanta, eða vökva með sérstaka eðlisfræðilega eiginleika.

Þéttefnisfræði byggir á grunni skammtafræðinnar en í stað þess að lýsa hegðun einstakra einda þá er reynt að skýra hvað gerist þegar margar (um 1.000.000.000.000.000.000.000.000 eða fleiri) eindir koma saman og mynda fast efni. Þéttefnisfræðin hefur þess vegna náin tengsl við önnur svið eins og efnafræði og örtækni. Þéttefnisfræðin er einnig mikilvæg fyrir ákveðnar greinar rafmagns- og vélaverkfræði og hafa framfarir í þéttefnisfræði á undanförnum áratugum haft gríðarleg áhrif á tækniþróun, meðal annars í tölvu- og samskiptatækni.

Þremenningarnir búa allir og starfa í Bandaríkjunum. David Thouless, sem er fæddur árið 1934, er prófessor emeritus við Washington háskólann. Duncan Haldane, sem er fæddur 1951, er prófessor í eðlisfræði við Princeton háskólann. Michael Kosterlitz, sem er fæddur 1942, starfar við Brown háskólann.

Hér er hægt að lesa nánar um rannsóknir þeirra

David J Thouless, F Duncan M Haldane og J Michael …
David J Thouless, F Duncan M Haldane og J Michael Kosterlitz. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert