Hlera þorskinn í sjónum

Menn gætu verið að trufla mökunarhljóð þorska með skarkala sínum.
Menn gætu verið að trufla mökunarhljóð þorska með skarkala sínum. mbl.is/ÞÖK

Hávaði í hafinu af völdum manna gæti truflað hrygningu þorsks og ætla breskir vísindamenn við Exeter-háskóla að ráðast í rannsóknir til að kanna áhrif hljóðmengunar á fiska. Þorskar eru sagðir hafa sérstaklega margbrotin hljóð til samskipta og gætu stofnar hans á mismunandi svæðum haft eigin „hreim“.

Þekkt er að hljóðmengun í hafinu getur haft áhrif á stærri sjávarspendýr en í frétt breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að nú standi til að kanna hvort að hún geti verið skaðlega fyrir algengar fisktegundir við strendur Bretlands, þar á meðal þorsk. Vísindamennirnir ætla að draga neðansjávarhljóðnema í gegnum grunnsjóinn og taka upp hljóðheiminn þar.

„Þorskur hefur sérstaklega margbrotin hljóð í samanburði við margra aðra fiska. Þeir láta sundmaga sinn, blöðruna innan í þeim, titra til að mynda hljóð. Þeir geta búið til vítt svið hvella, rýta og gnýja,“ segir Steve Simpson, prófessor við Exeter-háskóla við BBC.

Fiskarnir gera hljóð á hrygningarstöðvum. Hængurinn „syngur“ og hrygnan dæmir frammistöðu hans áður en hún sleppir hrognum sínum. Þorskurinn nýtir einnig hljóð til að rata, afmarka yfirráðasvæði og vara við hættu.

Hættan sem vísindamenn vilja er kanna er að hávaði frá skipaferðum, olíu- og gasvinnslu og öðrum athöfnum manna geti truflað samskipti fiskanna í hafinu.

Gætu átt erfitt með að skilja hver annan

Einnig á að kanna hvort að staðbundnir fiskstofnar myndi frábrugðin hljóð hver frá öðrum og hafi þannig nokkurs konar „hreim“. Sú hefur reynst raunin í ýmsum öðrum dýrategundum eins og söngfuglum og háhyrningum. Simpson segir rannsóknir í Bandaríkjunum benda til að það sama gæti átt við um þorskinn.

Sé það rétt að svæðisbundnir þorskstofnar hafi sinn eigin hreim gæti það haft þýðingu fyrir þær breytingar sem eru að verða á hafinu vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Sumar fisktegundir hafa fært sig norður í höf undan hlýnandi hafinu. Eigi mismunandi stofnar erfitt með að skilja „hreim“ hvers annars gæti það torveldað aðlögun aðkomustofnanna og hrygningu.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert