Stofnfrumur til bjargar hjartveikum öpum

Makakíapi af tegundinni macaca radiata.
Makakíapi af tegundinni macaca radiata. Wikipedia/Shantanu Kuveskar

Vísindamenn hafa notað stofnfrumur sem ræktaðar voru úr húðfrumu apa til að endurfjörga skemmd hjörtu fimm veikra makakíapa.

Umrædd rannsókn er skref í átt að því að framleiða stofnfrumur til að hjálpa þeim sem hafa fengið hjartaáfall, án þess að þurfa að notast við stofnfrumur úr fóstrum eða stofnfrumuþeganum sjálfum.

Teymið notaðist við svokallaðar fjölhæfar stofnfrumur en þær eru framleiddar með því að fá sérhæfðar frumur, t.d. húðfrumur, til að hverfa aftur til hlutlauss ástands. Þannig verða þær í raun auður strigi fyrir vísindamenn til að breyta þeim í hvers kyns frumur.

Áður en umrædd aðferð, iPSC, var tekin í notkun voru fjölhæfar stofnfrumur teknar úr fóstrum sem fara forgörðum en sú leið hefur ávallt verið umdeild.

Til er þriðja tegund stofnfruma sem má heimta úr mannslíkamanum en þessar „fullorðnu“ frumur er að finna djúpt í ákveðnum líffærum á borð við hjartað og koma í stað skemmdra fruma.

Fullorðnar stofnfrumur úr hjartanu hafa þegar verið notaðar til að hjálpa þeim sem fengið hafa hjartaáfall og þá hefur einnig náðst árangur þar sem stofnfrumur úr fóstrum hafa verið notaðar í sama tilgangi.

Teymið sem hér um ræðir er hins vegar það fyrsta sem notar iPSC til að bregðast við hjartaskemmdum.

Að rækta hjartafrumu úr stofnfrumu sjúklingsins er tímafrekt og kostnaðarsamt, að sögn vísindamannanna, og sjúklingurinn kann að hafna „gjafafrumum.“

Í tilfelli apanna valdi teymið sameind í ónæmisfrumu sem var eins í frumugjafanum og frumuþeganum og útkoman var sú að nýju frumurnar höfðu jákvæð áhrif á starfsemi hjartans.

Þá þykir það góðs viti að ónæmiskerfi frumuþegans hafnaði ekki gjöfinni.

Einn höfunda rannsóknarinnar, Yuji Shiba við Shinshu University í Japan, sagði í samtali við AFP að spurningum væri enn ósvarað varðandi æxlamyndun og vandamál tengd hjartsláttaróreglu.

Hann sagðist hins vegar bjartsýnn á að prófanir á mönnum myndu hefjast innan fárra ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert