WHO styður sykurskatt

mbl.is/Eggert

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) styður ríki sem leggja sykurskatt á gosdrykki en í nýrri skýrslu frá WHO kemur fram að hækkun verðs um 20% eða meira hafi mikil áhrif á neyslu og bætta næringu fólks.

Hingað til hefur stofnunin stutt minni sykurneyslu og manneldismarkmið sem miða að minni neyslu sykurs en hefur ekki hingað til viljað gefa út opinberlega að hún styðji slíka skattlagningu fyrr en núna. 

Nokkur lönd, svo sem Mexíkó og Ungverjaland, hafa lagt sykurskatt á en hér á landi var slíkur skattur lagður á árið 2013 en sykurskatturinn var afnuminn 1. janúar 2015 og var því aðeins í gildi í 21 mánuð. 

WHO segir að nauðsynlegt sé að draga úr sykurneyslu í heiminum og þannig draga úr offitu, sykursýki og tannskemmdum. Þar er átt við sykur sem er viðbættur, ekki sykur sem er náttúrulegur í ávöxtum og mjólk. Engin þörf sé á því út frá næringarlegum sjónarmiðum að borða sykur.

Í frétt BBC kemur fram að mælt sé með því að sykur sé ekki meira en 10% af þeim hitaeiningum sem einstaklingar innbyrða. Helst ekki meira en 5% svo vel eigi að vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert