Aðild að geimstofnun til skoðunar

Vísindamenn og verkfræðingar Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) fylgjast með endalokum Rosettuleiðangursins. …
Vísindamenn og verkfræðingar Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) fylgjast með endalokum Rosettuleiðangursins. Ísland gæti sótt um aðild á næstunni. AFP

Íslensk stjórnvöld eiga að skoða fýsileika þess að Ísland gerist aðili að Evrópsku geimstofnuninni (ESA) eftir að afgerandi meirihluti þingmanna samþykkti þingsályktunartillögu þess efnis fyrir þinglok í dag. „Kannski förum við bara til stjarnanna,“ sagði þingmaður Pírata við umræður um tillöguna.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði upphaflega fram þingsályktunartillögu um að Alþingi fæli utanríkisráðherra að sækja um aðild að ESA. Við meðferð tillögunnar í utanríkisnefnd var henni breytt og þess í stað lagt til að sótt yrði um að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild.

Fyrir þinglok í dag samþykktu allir þingmennirnir 57 sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna tillöguna. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði við aðra umræðu um tillöguna að með samþykkt hennar væri verið að efla vísindastarf á Íslandi.

„Kannski bara förum við til stjarnanna. Per aspera ad astra,“ sagði Ásta Guðrún og sló um sig með latneska orðatiltækinu sem þýðir „í gegnum erfiðleika til stjarnanna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert