Nýtt met í kjarnasamrunatilraun

Verkfræðingar vinna að smíði ITER-kjarnasamrunaofnsins í Frakklandi.
Verkfræðingar vinna að smíði ITER-kjarnasamrunaofnsins í Frakklandi. AFP

Vísindamenn við MIT-háskóla í Bandaríkjunum tilkynntu í dag að þeir hefðu sett nýtt met í þrýstingi rafgass við tilraunir þeirra með kjarnasamruna. Mikill þrýstingur og hátt hitastig er lykilþáttur í að framleiða mikið magn hreinnar orku með því að láta kjarna frumeinda renna saman.

Kjarnasamruni eins og sá sem á sér stað inni í kjarna sólarinnar er af mörgum talinn heilagur gral endurnýjanlegrar orku. Menn eru þó enn langt frá því að þróa tækni sem gerir þeim kleift að skapa kjarnasamruna í kjarnaofnum á jörðinni.

MIT-vísindamennirnir segjast hafa náð þrýstingi rafgass í Alcator C-Mod Tokamak-kjarnaofni sínum í meira en tvöfalda loftþyngd (atm) við 35 milljóna gráðu hita á Celsíus í tvær sekúndur. Það er 16% bæting á meti sem var sett árið 2005. Þeir kynntu metið á fundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar um kjarnasamruna í Japan í dag.

Metið er sagt benda til þess að sterkt segulsvið sé hagkvæmasta leiðin til þess að hemja rafgasið og smíða skilvirkan kjarnasamrunaofn. Það náðist á síðasta degi tilraunanna en fjárveitingar bandarískra stjórnvalda til þeirra eru nú uppurnar.

Bandaríkjamenn leggja nú allt rannsóknafé sitt í kjarnasamruna til ITER, alþjóðlegs tilraunakjarnasamrunaofns í Frakklandi.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert