Vill gægjugöt í stað glerveggja

Attenborough hélt fyrirlestur hér á landi 2009 og komust færri …
Attenborough hélt fyrirlestur hér á landi 2009 og komust færri að en vildu. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Náttúrufræðingurinn David Attenborough hefur kallað eftir því að górillur í dýragörðum séu vistaðar bak við veggi með gægjugötum í stað glerveggja. Tilgangurinn er að standa vörð um einkalíf skepnunnar.

Hinn 90 ára sjónvarpsmaður tjáði sig um málið í kjölfar þess að górilla slapp úr rými sínu í dýragarðinum í Lundúnum sl. fimmtudag. Sagði hann að atvikið ætti ekki að koma á óvart þar sem dýrin mættu þola stöðugan átroðning.

Attenborough sagði að fólk ætti að viðhafa meiri virðingu í dýragörðum og ekki láta eins og trúðar og reyna að eggja dýrin til að bregðast við. Hann sagði hins vegar einnig að dýragarðar hefðu mikilvægu hlutverki að gegna hvað varðar verndun tegunda í útrýmingarhættu.

Górillur eru ekki „bara dýr“ að sögn Attenborough og standa …
Górillur eru ekki „bara dýr“ að sögn Attenborough og standa vörð um einkalíf sitt. AFP

„Þær eru dásamlegar skepnur, górillur. Þær eru dýr sem standa vörð um einkalíf sitt,“ sagði Attenborough við ITV. „Í skógum Vestur-Afríku lifa þær ekki fyrir opnum tjöldum. Það er ekki glápt á þær.“

„Kannski er lausnin sú að það ætti ekki að leyfa fólki að vera á bak við stóra glerveggi,  heldur gægjast gegnum göt til að górillurnar geri sér ekki grein fyrir því að verið er að horfa á þær, en það er erfitt að gera í dýragarði þar sem tugþúsundir vilja berja dýrin augum.“

Attenborough biðlaði til fólks um að sýna dýrunum virðingu og sagði þau meira en „bara dýr.“ Bað hann fólk m.a. um að ímynda sér hvernig það væri að búa við þau skilyrði sem þeim væru búin.

Náttúrufræðingurinn er dáður út um allan heim enda hefur hann í hálfa öld frætt milljónir manna um undur náttúrunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert