Marslending í beinni útsendingu

Teikning af lendingarfarinu Schiaparelli svífa frá Trace Gas Orbiter niður …
Teikning af lendingarfarinu Schiaparelli svífa frá Trace Gas Orbiter niður til Mars. AFP

Áætlað er að evrópska tilraunalendingarfarið Schiaparelli lendi á yfirborði Mars skömmu fyrir kl. 15 að íslenskum tíma í dag. Hægt verður að fylgjast með lendingunni í beinni útsendingu á vef Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA). Móðurfarið Trace Gas Orbiter kemst einnig á braut um reikistjörnuna í dag.

Schiparelli er aðeins ætlað að endast í nokkra daga á yfirborði Mars en það er tilraunfar sem á að prófa tæknina sem þarf til að lenda stærri geimförum á rauðu reikistjörnunni. Geimfarið er hluti af ExoMars-leiðangri ESA en til stendur að senda stærri könnunarjeppa til Mars árið 2020, að því er kemur fram í frétt á Stjörnufræðivefnum.

Lendingin er fyrirhuguð kl. 14:48 að íslenskum tíma og tíu mínútum síðar á staðfesting að berast til jarðar. Bein útsending frá brautarinnsetningu Trace Gas Orbiter og lendingu Schiaparelli hefst á vef ESA kl. 13 að íslenskum tíma og má fylgjast með henni í spilaranum hér fyrir neðan.

Þunnur lofthjúpur Mars verður notaður til þess að hægja á Schiaparelli. Fallhlífar hægja enn frekar á ferð þess en eldflaugar sem ræstar verða í lokahluta aðflugsins eiga svo að tryggja mjúka lendingu.

Þar sem um tilraunalendingu er að ræða verður fátt um myndir og vísindarannsóknir. Farið tekur fimmtán svarthvítar myndir í verkfræðilegum tilgangi og verða þær birtar á blaðamannafundi á morgun. Einu vísindalegu mælingarnar verða gerðar með DREAMS-veðurstöðinni í geimfarinu sem á að mæla lofthita, rakastig, loftþrýsting, skyggni, vindhraða og vindátt.

Trace Gas Orbiter og Schiaparelli var skotið á loft 14. mars. Geimförin tvö voru svo aðskilin á sunnudag fyrir komuna til Mars. Brautarfarið á að leita að snefilgasi í lofthjúpi Mars eins og metani sem mögulega gæti verið myndað af örverum á reikistjörnunni.

Frétt Mbl.is: Marsleiðangur farinn í loftið

Frétt Mbl.is: Leita af stað í leit að lífi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert