Styrkur koltvísýrings nær nýjum hæðum

Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að styrkur koltvísýrings í …
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið meiri í milljónir ára. AFP

Alþjóðaveðurfræðistofnunin segir að styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hafi verið 400 milljónarhlutar að meðaltali á síðasta ári. Það hefur áður gerst í einstökum mánuðum á vissum svæðum en aldrei að ársmeðaltali. Ekki hefur verið eins mikið af lofttegundinni í lofthjúpnum í milljónir ára. 

Styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar koltvísýrings hefur stóraukist undanfarna áratugi vegna bruna manna á jarðefnaeldsneyti og veldur loftslagsbreytingum á jörðinni. Alþjóðaveðurfræðistofnunin birti í dag nýjustu skýrslu sína um gróðurhúsalofttegundir og sagði að styrkurinn hefði aftur náð methæðum á þessu ári.

Stofnunin spáir því að ársmeðaltalið verði yfir 400 milljónarhlutum „í margar kynslóðir“.

Hluti af ástæðunni fyrir auknum styrk koltvísýrings var veðurfyrirbrigðið El niño. Það olli þurrki á sumum hitabeltissvæðum og dró úr getu skóga og gróðurs til þess að taka upp koltvísýring úr andrúmsloftinu.

Petteri Taalas, forstöðumaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, segir að ekki sé ástæða til að sofa á verðinum þrátt fyrir að El niño hafi nú slotað.

„El niño er horfinn. Loftslagsbreytingar eru það ekki,“ segir Taalas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert