Blekktir með geimgöngu „í beinni“

Bandaríski geimfarinn Terry Virts í geimgöngu utan við Alþjóðlegu geimstöðina …
Bandaríski geimfarinn Terry Virts í geimgöngu utan við Alþjóðlegu geimstöðina í fyrra. mynd/NASA

Milljónir netverja virðast hafa verið blekktir með „beinni útsendingu“ frá geimgöngu við Alþjóðlegu geimstöðina á smelludólgasíðum í dag. Myndböndin af geimförunum sem þar sáust voru í raun frá eldri geimgöngum, en engin slík fór fram í dag.

Vefsíðurnar Viral USA og Unilad birtu myndbönd á Facebook-síðum sínum í dag sem voru sögð bein útsending frá geimgöngu við Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðina. NASA hafði hins vegar ekki tilkynnt neina geimgöngu í dag og engin bein útsending var á Facebook-síðu geimstöðvarinnar heldur.

Blaðamaður vefsíðunnar Mashable fékk fljótt staðfest hjá talsmanni NASA að engin bein útsending væri frá geimstöðinni í dag. Myndböndin væru í raun úr eldri geimgöngum. Þá höfðu milljónir manna líkað við og horft á myndbönd vefsíðnanna.

Hægt er að sjá raunverulega beina útsendingu frá myndavélum utan á Alþjóðlegu geimstöðinni á vefsíðu NASA. Það tekur geimstöðina níutíu mínútur að fara einn hring um jörðina og því er myndin svört helming tímans þótt vissulega sé hægt að greina borgarljós í myrkrinu.


Broadcast live streaming video on Ustream

Frétt IFLScience

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert