Telja neðanjarðarhaf undir ísnum á Plútó

Plútó eins og hann kom fyrir sjónir New Horizons. Spútniksléttan …
Plútó eins og hann kom fyrir sjónir New Horizons. Spútniksléttan er vestasti hluti hjartalaga svæðisins sem nefnist Tombough-svæðið. AFP

Vísindamenn sem hafa farið yfir myndir og gögn frá geimfarinu New Horizons telja að haf fljótandi vatns sé að finna undir frosnu yfirborði dvergreikistjörnunnar Plútós. Hafið er líklega blandað ískrapa um 150-200 kílómetra undir yfirborðinu. Það gæti verið um hundrað kílómetra djúpt og innihaldið eins mikið vatn og öll höf jarðar.

Sagt var frá þessum niðurstöðum í tveimur greinum sem birtust í vísindaritinu Nature í dag. Vísindamennirnir telja að hiti sem er enn til staðar í kjarna Plútós frá því að hnötturinn myndaðist fyrir um 4,6 milljörðum ára haldi vatninu fljótandi þrátt fyrir fimbulkuldann á þessum ysta hjara sólkerfisins.

„Það er nógu mikið berg á Plútó til að töluverður hiti geti enn myndast og ísskel sem er nokkur hundruð kílómetra þykk er góð einangrun. Þannig er djúpt neðanjarðarhaf ekki of óvænt sérstaklega ef það er ammoníak í hafinu en það virkar eins og frostlögur,“ segir Francis Nimmo, reikistjörnufræðingur við Kaliforníuháskóla við Reuters-fréttastofuna.

Bætist í hóp hnatta með neðansjávarhaf

Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að neðanjarðarhaf hlyti að vera til staðar á Plútó þegar þeir reyndu að ráða í eitt helsta kennileiti dvergreikistjörnunnar, Spútniksléttuna. Hún er um 1.000 kílómetra breið loftsteinadæld nærri miðbaugi Plútós.

Tölvulíkön bentu til þess að dældin hefði fyllst af ís sem hafi valdið því að Plútó valt á hliðina og ísskopa hans brotnaði. Það gæti aðeins gerst ef neðanjarðarhaf fljótandi vatns væri til staðar.

Undanfarin ár og áratugi hafa stjörnufræðingar fundið nokkra hnetti í sólkerfinu þar sem fljótandi vatn gæti verið til staðar undir ísskorpu, þar á meðal á Evrópu og Enkeladusi, tunglum Júpíters og Satúrnusar. Þar gæti líf jafnvel þrifist á efnaorku við jarðhitastrýtur á hafsbotninum.

Richard Binzel, reikistjörnufræðingur við MIT-háskóla og einn höfunda rannsóknarinnar, segir að Plútó sé ekki líklegur til að hýsa líf vegna þess hversu þykk ísskorpa hans er en útilokar það þó ekki algerlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert