Alzheimerslyf stenst ekki skoðun

Kona með Alzheimers í Frakklandi. Búist er við mikilli fjölgun …
Kona með Alzheimers í Frakklandi. Búist er við mikilli fjölgun fólks með vitglöp á næstu áratugum. AFP

Tilraunalyfið solanezumab sem lyfjafyrirtækið Eli Lilly hefur þróað undanfarin ár og hafði vakið vonir um að gæti hægt á framgangi Alzheimers-sjúkdómsins stóðst ekki stóra vísindalega rannsókn. Fyrirtækið segir niðurstöðuna vonbrigði.

Fyrstu niðurstöður tilrauna með lyfið höfðu vakið vonir um að það gæti hægt á framrás sjúkdómsins um allt að þriðjung. Þær vonir virðast ekki hafa verið á rökum reistar því fyrirtækið segir að ekki hafi komið fram tölfræðilega marktækur munur á framgangi sjúkdómsins hjá þeim sem fengu lyfið annars vegar og þeim sem fengu lyfleysu hins vegar.

Frétt Mbl.is: Lyf gæti hægt á Alzheimers

Eli Lilly segist ekki ætla að reyna að fá leyfi til að selja lyfið sem meðferð við mildum vitglöpum. Jeremy Hughes, forstjóri Alzheimers-samtakanna, segir það gífurleg vonbrigði að lyfið hafi ekki skilað árangri fyrir fólk með vitglöp.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að 36 milljónir manna þjáist af vitglöpum. Þeim muni fjölga upp í meira en 65 milljónir fyrir árið 2030 og ná 115 milljónum árið 2050. David Reynolds frá Alzheimersrannsóknastofnuninni í Bretlandi segir að nærri fimmtán ár séu nú liðin frá því að nýtt lyf gegn Alzheimers kom á markað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert