Skall á Mars á 540 km/klst

Mynd HiRise-myndavélar MRO-brautarfarsins af brotlendingarstað Schiaparelli.
Mynd HiRise-myndavélar MRO-brautarfarsins af brotlendingarstað Schiaparelli. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/Univ. of Arizona

Evrópska geimfarið Schiaparelli skall á yfirborði Mars á um 540 kílómetra hraða á klukkustund eftir að tölva um borð í farinu misreiknaði hæð þess í síðasta mánuði. Tölvan hélt að farið væri lent þegar það var enn í um 3,7 kílómetra hæð, að sögn Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA).

Schiaparelli átti að lenda á Mars 19. október til að prófa tæknina fyrir lendingu stærra könnunarfars ESA árið 2021. Tæknimenn stofnunarinnar hafa farið yfir mikið magn gagna frá því að geimfarið glataðist við lendinguna. Niðurstaða þeirra er að tölva um borð sem mældi snúning geimfarsins hafi náð hámarki mælikvarða síns og það hafi slegið aðra útreikninga út af laginu.

Frétt Mbl.is: Galli í hugbúnaði líklegt banamein Schiaparelli

Þetta hafi orðið til þess að siglingatæki geimfarsins hafi talið það mun neðan en það raunverulega var. Það leiddi til þess að fallhlíf hafi verið opnuð of snemma og stýriflaugar ræstar of fljótt sömuleiðis. Mælitæki geimfarsins sögðu því að það væri komið í neikvæða hæð undir yfirborði.

„Þetta leiddi til þess fallhlífin og hitaskjöldurinn voru losuð of snemma, bremsuflaugarnar brunnu stutt og loks kviknaði á yfirborðskerfum eins og Schiaparelli hefði þegar lent. Í raun og veru var farið ennþá í 3,7 kílómetra hæð,“ segir í tilkynningu ESA sem breska blaðið The Guardian segir frá.

Móðurfar Schiaparelli, brautarfarið Trace Gas Orbiter, komst hins vegar á braut um Mars. Vísindarannsóknir þess hefjast þó ekki fyrr en seint á næsta ári en næstu mánuði verður geimfarinu komið á braut nær reikistjörnunni. Tilgangur þess er meðal annars að leita að metani í lofthjúpi Mars sem gæti verið merki um örverulíf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert