Þorsteinn verðlaunaður fyrir rannsóknir sínar

Þorsteinn þegar hann tók við verðlaununum á ráðstefnu AAPS á …
Þorsteinn þegar hann tók við verðlaununum á ráðstefnu AAPS á dögunum. Með honum í för á ráðstefnunni voru doktorsnemar hans og nýdoktor sem starfar með honum. Á myndinni frá vinstri eru þau Phennapha Saokham, sem ver doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands á morgun, Sunna Jóhannesdóttir, Þorsteinn Loftsson, Agnieszka Popielec, Alexey Ryzhakov (nýdoktor) og André Rodrigues Sá Couto.

Þorsteinn Loftsson, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut verðlaun Landssamtaka vísindamanna í lyfjafræðirannsóknum í Bandaríkjunum (American Association of Pharmaceutical Scientists – AAPS) á árlegri ráðstefnu þeirra í Denver fyrr í mánuðinum. Viðurkenninguna hlýtur hann fyrir rannsóknir sínar á svokölluðum sýklódextrínum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Veitt voru verðlaun í þremur flokkum á ráðstefnunni og einungis einn vísindamaður var verðlaunaður í hverjum flokki. Verðlaun AAPS hljóta einungis þeir vísindamenn sem stundað hafa rannsóknir sem hafa haft víðtæk áhrif innan hinna ólíku sviða lyfjafræðinnar. Þorsteinn fékk viðurkenningu fyrir rannsóknir á sviðum eðlislyfjafræði og aðgengisfræði lyfja, en verðlaunin nefnast „AAPS Research Achievent Award in Physical Pharmacy and Biopharmaceutics“ á ensku.

Á ferli sínum sem vísindamaður hefur Þorsteinn fengist við ýmis viðfangsefni en það er fyrir rannsóknir á svokölluðum sýklódextrínum sérstaklega sem hann hlýtur verðlaunin. Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem má t.d. nota við að auka vatnsleysanleika fituleysanlegra lyfja.

Þorsteini og samstarfsfólki hefur m.a. tekist að búa til nanóagnir úr sýklódextrínum sem auðvelda flutning lyfja yfir lífrænar himnur. Þetta þýðir að sýklódextrínin geta gegnt hlutverki lyfjaferja og fyrir tilstilli þessarar uppgötvunar hefur verið hægt að ferja lyf í augndropum frá yfirborði augans í bakhluta þess í stað þess að sprauta lyfinu í augað með tilheyrandi óþægindum fyrir þá sem eru með augnsjúkdóma. Þess má geta að Þorsteinn stofnaði ásamt Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum við Háskóla Íslands, fyrirtækið Oculis á grundvelli þessara rannsókna.

Þorsteinn hefur auk þess komið að stofnun fleiri sprotafyrirtækja og eftir hann liggja um tíu merkilegar uppfinningar á sviði lyfja- og læknisfræði. Hann er enn fremur í hópi þeirra vísindamanna Háskóla Íslands sem eiga flest einkaleyfi. Þá hefur Þorsteinn hlotið ýmsar viðurkenningar á ferlinum, þar á meðal heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2015 en þau eru veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu fræðasviði og miðlað þekkingu til framfara í íslensku þjóðfélagi. Auk þess er Þorsteinn einn örfárra Íslendinga sem komist hafa á sérstakan lista matsfyrirtækisins Thomson Reuters yfir þá vísindamenn sem hafa mest áhrif á sínu vísindasviði í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert