Óttast óstöðvandi loftslagsbreytingar

Dökkt haf dregur í sig meiri orku frá sólinni en …
Dökkt haf dregur í sig meiri orku frá sólinni en hvítur ís. Því getur bráðnun hafíss leitt til meiri hlýnunar og þannig enn meiri bráðnunar. mbl.is/Golli

Hröð bráðnun íss á norðurskautinu gæti haft mikil áhrif á nálæg vistkerfi og jafnvel allt suður í Indlandshafi, að sögn vísindamanna. Hætta sé á að náttúran nái hvarfpunktum sem leiði til óstöðvandi loftslagsbreytinga á heimsvísu. 

Gríðarleg bráðnun íss hefur átt sér staða á norðurheimsskautinu undanfarin ár og áratugi. Um þessar mundir er hafísinn í Norður-Íshafinu í sögulegu lágmarki vegna nær fordæmalausrar hitabylgju. Hefur hitinn á norðurskautinu verið allt að 20°C hærri en vanalega á þessum árstíma.

Frétt Mbl.is: Hitabylgja á norðurskautinu

Í nýrri skýrslu á vegum ellefu stofnana og samtaka, þar á meðal Norðurskautsráðsins og sex háskóla, er bent á fjölda svonefndra hvarfpunkta (e. tipping point) á norðurskautinu. Hvarfpunktar eru mörk þar sem jafnvægi náttúrulegs kerfis eins og íshellunnar á norðurskautinu raskast skyndilega eða mikið sem hefur miklar afleiðingar fyrir nálæg vistkerfi, jafnvel óafturkræf.

Hlýnunin veldur meiri hlýnun

Á meðal þessara hvarfpunkta er vöxtur gróðurs á freðmýrum þar sem dökkur gróður sem dregur í sig meiri hita kemur í stað snjós sem endurvarpar sólarljósi, meiri losun metans frá freðmýrum við hlýnunina og hrun fiskistofa í Norður-Íshafinu svo eitthvað sé nefnt. Hlýnun í hafinu gæti jafnvel haft áhrif í Asíu þar sem hringrás monsúnrigninga gæti raskast.

Vísindamenn hafa jafnframt varað við því að breytingarnar sem eru að verða á norðurskautinu valdi svonefndri jákvæðri svörun (e. positive feedback loop) þar sem afleiðingar hlýnunar valda enn meiri hlýnun. Dæmi um þetta er hafísinn sem veldur kólnun loftslags með því að endurvarpa geislum sólarinnar aftur út í geim. Þegar hann dregst saman verður eftir svæði dökks hafs sem drekkur í sig meiri hita sem aftur veldur meiri bráðnun hafíssins.

Frétt Mbl.is: Rista jarðrannsóknaáætlun NASA á hol

„Þetta eru mjög alvarleg vandamál, mjög alvarlegar breytingar sem eru að eiga sér stað en menn hafa enn lítinn skilning á þeim. Við þurfum frekari rannsóknir til að skilja þær,“ segir Marcus Carson frá Umhverfisstofnuninni í Stokkhólmi og einn aðalhöfunda skýrslunnar.

Þess vegna varar hann við því að bandarísk stjórnvöld skeri niður loftslagsrannsóknir Bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA eins og ráðgjafar Donalds Trump, verðandi forseta, hafa látið í veðri vaka.

„Það væri eins og að rífa stjórntæki flugvélar úr stjórnklefanum í miðju flugi,“ segir Carson við The Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert