Opna sjálfvirka matvöruverslun

Til að komast inn í verslunina þarf snjallsíma, Amazon Go …
Til að komast inn í verslunina þarf snjallsíma, Amazon Go appið og Amazon Go reikning. Skjáskot/Amazon

Amazon ætlar að opna matvöruverslanir án kassa. Fyrsta verslunin opnar í Seattle í Bandaríkjunum í byrjun næsta árs og munu viðskiptavinir þar greiða fyrir vörur með smáforriti í símanum.

Verslanirnar hafa fengið heitið „Gakktu bara út“ (Just Walk Out). Á vefsíðu Amazon segir að verslanirnar byggi á háþróaðri tækni svipaðri þeirri sem notuð er í sjálfkeyrandi bílum.

Allt sem þarf til er Amazon-aðgangur, snjallsími og Amazon Go-forritið. Til að komast inn í verslunina er snjallsímanum veifað upp að skynjara, því næst velur viðskiptavinurinn það sem hann vill og gengur svo út. Á vef Amazon segir: „Tæknin greinir þegar vara er tekin úr hillu og þegar henni er skilað og fylgist þannig með vörunum sem þú kaupir í sýndarkörfu. Þegar þú ert búin(n) að versla geturðu bara gengið út. Stuttu síðar munum við skuldfæra Amazon-reikninginn þinn og senda þér kvittun.“

Í frétt BBC um nýjungina segir að fjögur ár hafi tekið að þróa verslanirnar. Hægt verður að kaupa hefðbundnar matvörur á borð við brauð og mjólk en Amazon mun einnig bjóða upp á tilbúnar máltíðir og máltíðarpakka (Meal Kits) sem innihalda allt sem þarf í máltíð fyrir tvo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert