Óttast vaxandi metanlosun

Hrísgrjónaræktun er talin á meðal orsaka vaxandi losunar á metani …
Hrísgrjónaræktun er talin á meðal orsaka vaxandi losunar á metani undanfarin tíu ár. AFP

Styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar metans hefur aukist hratt í lofthjúpi jarðar undanfarinn tíu ár og hefur það komið vísindamönnum á óvart. Þeir óttast að metanlosunin grafi undan aðgerðum til að hægja á loftslagsbreytingum. Landbúnaður er talin möguleg uppspretta metanlosunarinnar.

Metan er tuttugu sinnum öflugari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur og hefur styrkur gassins aukist hröðum skrefum síðasta áratuginn samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birt er í tímaritinu Environmental Research Letters. Aukningin hófst árið 2007 og tók hún kipp árin 2014 og 2015. Á sama tíma hefur losun koltvísýrings jafnast út að einhverju leyti.

Frétt Mbl.is: Eins og að bæta við öðrum Bandaríkjum

Ólíkt koltvísýringi sem er aðaluppistaða losunnar manna á gróðurhúsalofttegundum er öflugt eftirlitskerfi með losun metans ekki til staðar. Vísindamennirnir velta upp þeim möguleika að metanlosunina nú megi skýra með landbúnaði. Ekki sé hins vegar hægt að fullyrða um það vegna skorts á eftirliti. Þeir hafa áhyggjur af því að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til losunar metans í aðgerðum ríkja heims til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Að minnsta kosti þriðjungur losunar metans kemur frá vinnslu jarðefnaeldsneytis þar á meðal frá bergbroti og olíuborunum. Þar kemur metan upp sem aukaafurð. Því er annað hvort leyft að sleppa út í andrúmsloftið eða það brennt sem er ekki eins skaðlegt fyrir loftslagið.

Á meðal þeirra áhrifa loftslagsbreytinga sem vísindamenn óttast er að hækkandi hitastig muni leysa úr læðingi metan sem hefur verið bundið í freðmýrum á norðlægum slóðum. Þessi öfluga gróðurhúsalofttegund muni þá valda enn meiri og óafturkræfri hlýnun.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert