Óundirbúin fyrir smástirnaógn

Loftsteinn springur í grennd við Chelyabinsk borg í Rússlandi í …
Loftsteinn springur í grennd við Chelyabinsk borg í Rússlandi í febrúar 2013. memolition.com

Mannkynið er algerlega óundirbúið fyrir smástirni eða halastjörnu sem gæti birst óvænt og stefnt á jörðina. Vísindamaður hjá NASA segir mögulegt að slíkir hnettir uppgötvist með mun skemmri fyrirvara en það tæki að smíða og senda af stað eldflaug til að verja jörðina.

Ógnin sem að jörðinni stafar af halastjörnum eða smástirnum barst í tal á ársþingi Bandaríska jarðeðlisfræðisambandsins. Þar sagði Joseph Nuth, vísindamaður hjá Goddard-geimmiðstöð NASA, að ef menn uppgötvuðu hnött af þessu tagi sem stefndi á jörðina væri ekki margt sem þeir gætu gert í því eins og sakir standa.

Sem dæmi nefndi hann að fyrir tveimur árum fór halastjarna afar nálægt reikistjörnunni Mars á stjarnfræðilegan mælikvarða. Menn komu fyrst auga á hana 22 mánuðum áður en hún fór næst Mars.

„Ef þú skoðar áætlanir fyrir áreiðanlegustu eldflaugarnar og geimskot þeirra þá tekur það fimm ár að skjóta geimfari á loft. Við höfðum 22 mánaða fyrirvara allt í allt,“ sagði Nuth.

Frétt Mbl.is: Breyti sólkerfinu til að lifa af

Hann hefur sjálfur talað fyrir því að NASA smíði eldflaug sem getur farið til móts við smástirni eða halastjörnu og geymi á lager. Hana mætti prófa reglulega og halda á sama tíma úti geimfari sem fylgdist með hnöttum sem gætu rekist á jörðina. Þannig væri hægt að stytta viðbragðstímann um helming þó að jafnvel það væri of mikið.

Í umfjöllun The Guardian kemur fram að tvær leiðir hafi helst verið nefndar til þess að stöðva hnetti sem stefna á jörðina. Annar er að fljúga geimfari á milli ferð á hnöttinn og breyta þannig stefnu hans eða að sprengja kjarnorkusprengju á honum. Fyrri aðferðin væri flóknari í útreikningum en sú seinni gæti skapað hættu af brotunum sem yrðu til við sprenginguna.

NASA telur sig hafa fundið 90% af hnullungum í nágrenni jarðarinnar sem eru stærri en kílómetri að þvermáli og myndu valda hnattrænum hamförum á jörðinni. Minni fyrirbæri eru engu að síður stórhættuleg sömuleiðis. NASA hefur fundið á níunda hundrað smástirna sem hætta gæti stafað af og eru kílómetri að þvermáli.

Aðeins rétt tæp fjögur ár eru liðin frá því að loftsteinn sprakk yfir rússnesku borginni Chelyabinsk. Þá slösuðust fleiri en þúsund manns en loftsteinninn var talinn vera um átján metra breiður og sjö þúsund tonn að þyngd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert