Annar hlýjasti nóvember frá upphafi

Á korti sem sýnir frávik frá meðalhita fyrir nóvember sést …
Á korti sem sýnir frávik frá meðalhita fyrir nóvember sést að sérlega hlýtt var á norðurskautinu og Norður-Ameríku en óvenjukalt í miðju Rússlandi. kort/GISS

Nóvembermánuður var sá annar hlýjasti frá því að mælingar hófust samkvæmt tölum Goddard-geimrannsóknamiðstöðvar NASA sem heldur utan um hitastigsmælingar. Hitastigið var tæpri gráðu hærra en nóvembermeðaltal áranna 1951 til 1980 og aðeins 0,07°C lægra en í hlýjasta nóvember mælingasögunnar í fyrra.

Met var slegið í fyrra yfir hlýjasta nóvember frá því að mælingar hófust á seinni hluta 19. aldar. Þá var nóvembermánuður 1,02°C hlýrri en miðgildi þess mánaðar. Tveir hlýjustu nóvembermánuðir í sögunni hafa nú átt sér stað tvö ár í röð.

Frétt Mbl.is: Hitabylgja á norðurskautinu

Gavin Schmidt, forstöðumaður GISS, greindi jafnframt frá því á Twitter í dag að spár stofnunarinnar geri ráð fyrir að árið í ár verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust. Meðalhiti ársins verði 1,2°C hærri en undir lok 19. aldar.

Sérlega hlýtt hefur verið á norðuskautinu í haust og byrjun vetrar en þar seinkaði myndun hafíss verulega. Suðlægur vindur og óvenjuhlýr sjór eftir sterkan El nino-viðburð sem fjaraði út fyrr á árinu sem bættist ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af völdum manna eru sagðar ástæður hlýindanna þar.

Frétt á vef GISS um meðalhita jarðar í nóvember

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert