Konan sem fann hulduefni látin

Vera Rubin við mælitæki Carnegie-stofnunarinnar árið 1974.
Vera Rubin við mælitæki Carnegie-stofnunarinnar árið 1974. ljósmynd/Carnegie Institution

Vera Rubin, stjörnufræðingurinn sem sýndi fram á tilvist svonefnds hulduefnis í alheiminum, er látin 88 ára að aldri. Rannsóknir hennar á fjölda vetrarbrauta leiddi í ljós að  óþekkt og hingað til ósýnilegt efni hlyti að mynda stóran hluta alheimsins og ráða endanlegum örlögum hans.

Kenningin um hulduefni hafði verið til allt frá 4. áratug síðustu aldar en það var ekki fyrr en með athugunum Rubin og kollega hennar W. Kent Ford á fjölda vetrarbrauta á 8. áratugnum sem tilvist þess var staðfest. Það er talin ein helsta og afdrifaríkasta uppgötvun stjarnvísindanna á síðustu öld.

Með því að fylgjast með stjörnum á ystu jöðrum vetrarbrauta komst Rubin að því að þær snerust jafnhratt um miðju þeirra og þær sem voru innar, þvert á það sem stjörnufræðingar höfðu spáð. Til þess að svo mætti vera ályktaði Rubin að vetrarbrautirnar hlytu að innihalda verulegt magn ósýnilegs efnis sem hefði áhrif á sýnileg fyrirbæri eins og stjörnur.

„Svo mikilvægt er þetta hulduefni skilningi okkar á stærð, lögun og endanlegum örlögum alheimsins að leitin að því mun að líkindum vera höfuðverkefni stjörnufræðinnar næstu áratugina,“ skrifaði Rubin í Scientific American árið 1998.

Enn þann dag í dag hefur vísindamönnum ekki tekist að greina hulduefni með beinum hætti en þeir telja að það sé um 85% alls efnis í alheiminum.

Var hafnað því hún var kona

Vísindaáhugi Rubin kviknaði snemma á lífsleiðinni en sem ung stúlka smíðaði hún sér meðal annars stjörnusjónauka úr pappahólki. Kyn hennar átti hins vegar eftir að reynast henni fjötur um fót.

Hún útskrifaðist með stjörnufræði sem aðalgrein frá Vassar-háskóla árið 1948. Umsókn hennar um framhaldsnám við Princeton-háskóla var hins vegar hafnað þar sem stjörnufræðideild hans tók ekki við konum. Fékk hún meistaragráðu sína því frá Cornell-háskóla og síðar doktorsgráðu frá Georgetown. Það gerði hún á sama tíma og hún ól upp fjögur börn.

„Ég vann nánast allan starfsferil minn í hlutastarfi svo ég gæti verið komin heim klukkan þrjú og það var eftir að þau voru öll byrjuð í skóla. Það var næstum því yfirþyrmandi. Ég vann mikið heima,“ sagði Rubin við tímaritið Discover árið 2002.

Hún starfaði sem kennari við Georgetown í fjölda ára og vann síðar við Carnegie-stofnunina í Washington. Rannsakaði hún fleiri en tvö hundruð vetrarbrautir á ferlinum.

Rubin við stjörnusjónauka í Lowell-athuganastöðinni í Arizona árið 1965.
Rubin við stjörnusjónauka í Lowell-athuganastöðinni í Arizona árið 1965. ljósmynd/Carnegie Institute

Í andlátsfrétt Washington Post kemur fram að Rubin lagði sitt af mörkum til að hjálpa kynsystrum sínum í að ná fótfestu í stjörnufræði og öðrum raunvísindagreinum.

„Ég held að spurningin sé hvort að það séu og hafi verið konur sem vildu leggja stund á vísindi og gætu verið að vinna frábær vísindastörf en sem fengu í raun aldrei tækifæri til þess?“ sagði Rubin við blaðið árið 2005.

Fyrir uppgötvanir sínar hlaut Rubin ýmis verðlaun og viðurkenningar en þó ekki Nóbelsverðlaunin sem margir telja að hún hafi verðskuldað fyrir uppgötvun sína á hulduefni. Hún varð fyrsti kvenkyns stjörnufræðingurinn sem var valinn í Vísindaakademíu Bandaríkjanna og hún hlaut vísindaorðu Bandaríkjanna árið 1993 fyrir athuganir sínar á alheiminum.

Andlátsfrétt Washington Post

Andlátsfrétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert