Græn orka skákar jarðefnaeldsneytinu

Sólarsellur í Frakklandi. Sólarorka hefur lækkað verulega í verði undanfarin …
Sólarsellur í Frakklandi. Sólarorka hefur lækkað verulega í verði undanfarin misseri. AFP

Sólar- og vindorka kostar nú jafnmikið eða er ódýrari í framleiðslu en jarðefnaeldsneyti í fleiri en þrjátíu löndum samkvæmt skýrslu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar. Stofnunin telur endurnýjanlega orkugjafa komna að straumhvörfum og að þeir muni standa jafnfætis öðrum kostum á næstu árum í flestum löndum.

Kostnaður við sólar- og vindorku hefur dregist verulega saman á undanförnum árum og hefur hlutdeild þeirra í orkubúskap aukist hröðum skrefum. Í Bandaríkjunum bættu raforkufyrirtæki 9,5 gígavöttum frá sólarorku við raforkukerfið. Þegar sólarsellur sem settar hafa verið upp á íbúðarhúsum og fyrirtækjum eru tekin með í reikninginn jókst framleiðslugetan um 11,2 gígavött í fyrra. Af viðbótum við raforkukerfið kom stærsti einstaki hlutinn frá sólarorku.

Þrátt fyrir þetta er fjárfesting í endurnýjanlegum orkugjöfum langt fyrir neðan það sem til þarf til þess að gera mannkyninu kleift að forðast hættur hnattrænnar hlýnunar. Í skýrslu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar kemur fram að fjárfest var fyrir 286 milljarða dollara á síðasta ári. Það sé aðeins fjórðungur af þeirri einni milljón milljóna sem aðildarríki Parísarsamkomulagsins stefna að.

Stofnunin segir að hindranir í vegi fjárfestingar í grænni orku séu aðallega pólitísks eðlis frekar en efnahagslegs. Samningar séu ekki samræmdir, óvissa ríki um regluverk og fjármálastofnanir hafi ekki búið til fjárfestingakosti fyrir almenna fjárfesta.

Spár gera engu að síður ráð fyrir að sólarorka verði tvöfalt ódýrari en raforka sem framleidd er með kolum eða jarðgasi innan eins til tveggja áratuga.

Umfjöllun Quarz um skýrslu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert