Vilja einkaleyfi á fljúgandi vöruhúsi

Amazon-dróni sem fyrirtækið vill nota til að afhenda vöru, jafnvel …
Amazon-dróni sem fyrirtækið vill nota til að afhenda vöru, jafnvel frá fljúgandi vöruhúsum, í framtíðinni. AFP

Amazon hefur sótt um einkaleyfi á risavöxnu fljúgandi vöruhúsi með flota dróna sem sæju um vöruafhendingu. Tilgangurinn er að láta vöruhúsið fljúgandi svífa yfir svæðum þar sem búist er við því að eftirspurn eftir vörum verði mikil.

Loftskip héldi vöruhúsinu uppi en fyrirtækið segir að það gæti til dæmis verið notað í kringum stóra íþróttaviðburði eða hátíðir til að selja áhorfendum mat og minjagripi. Fljúgandi farartæki myndu einnig sjá um að fylla á lagerinn, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í umsókn Amazon kemur fram að fyrirtækið telji að fljótlegra yrði að afhenda vöru frá þessum fljúgandi vöruhúsum en hefðbundnum á jörðu niðri. Þau myndu svífa í allt að fjórtán kílómetra hæð. Í frétt BBC kemur fram að ekki sé vitað hvort að Amazon hyggist í raun smíða fljúgandi vöruhús en fyrirtæki sæki oft um einkaleyfi á hugmyndum sem aldrei verði að veruleika.

Vöruafhending með drónum er enn á tilraunastigi hjá Amazon.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert