NASA vill kanna einstakt smástirni

Þessi teikning listamanns NASA sýnir Lucy-geimfarið á meðal Trójuverjanna.
Þessi teikning listamanns NASA sýnir Lucy-geimfarið á meðal Trójuverjanna. AFP

Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur kynnt tvo nýja ómannaða leiðangra til smástirna, sem ætlað er að rannsaka fyrstu skeiðin í sögu sólkerfisins.

Leiðangrarnir nefnast annars vegar Lucy og hins vegar Psyche og stefnir NASA á að þeir hefjist árin 2021 og 2023, hvor um sig.

Tímabilið sem NASA vill læra meira um með þessum hætti er á þeim tíu milljón árum sem liðu eftir að sólin myndaðist.

Lucy-leiðangurinn, sem nefndur er eftir frægum og mikilvægum steingervingi sem fannst í Eþíópíu árið 1974, snýst um að senda tölvustýrt geimfar til að kanna svokölluð Tróju-smástirni Júpíters. Eru þau talin vera nokkurs konar minnisvarðar um upphafsskeið sólkerfisins.

„Þetta er einstakt tækifæri,“ sagði Harold Levison, verkefnisstjóri Lucy-leiðangursins, á kynningarfundi NASA í dag.

„Þar sem Trójuverjarnir eru leifar hinna ævafornu efna sem mynduðu ytri pláneturnar hafa þeir að geyma mikilvægar vísbendingar sem hjálpa okkur að ráða fram úr sögu sólkerfisins. Lucy, eins og nafni hennar steingervingurinn, mun gjörbylta skilningi manna á uppruna okkar.“

Mynd Juno-geimfarsins af Júpíter. Föli bletturinn næst honum er tunglið …
Mynd Juno-geimfarsins af Júpíter. Föli bletturinn næst honum er tunglið Íó en hinir tveir fjarlægari eru Evrópa og Ganýmedes. Ljósmynd/NASA

Flest smástirni úr grjóti eða ís

Psyche-leiðangrinum er þá ætlað að kanna tröllvaxið og einstakt smástirni úr málmi sem nefnist 16 Psyche og er um þrisvar sinnum fjær sólu en jörðin.

Flest smástirni eru úr grjóti eða ís, en þetta er talið vera að megninu til úr járni og nikkel, eins og kjarni jarðarinnar.

Segir NASA að vísindamenn velti fyrir sér þeim möguleika, að Psyche geti verið hluti af kjarna fornrar plánetu, sem hafi verið á stærð við Mars, en síðar misst ytri lög sín vegna ofsafenginna árekstra við aðrar plánetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert