Mengun eykur líkur á heilabilun

Íbúar í Peking eru meðal þeirra sem búa við skert …
Íbúar í Peking eru meðal þeirra sem búa við skert lífsgæði vegna mengunar. AFP

Fólk sem býr nálægt hraðbrautum er líklegra til þess að glíma við heilabilun síðar á lífsleiðinni. Þetta kemur fram í nýrri grein í vísindaritinu Lancet. 

Telja rannsakendur að allt að 11% tilvika heilabilunar meðal fólks sem býr í innan við 50 metra fjarlægð frá stofnæðum megi rekja til umferðarinnar.

Fylgst var með tæplega tveimur milljónum manna í Kanada á ellefu ára tímabili. Fram kemur í rannsókninni að mengun eða umferðarniður geti ýtt undir hrörnun heilans.

Talið er að um 50 milljónir jarðarbúa glími við heilabilun. Af þeim sem tóku þátt í rannsókninni greindust 243.611 með heilabilun á rannsóknartímanum. Mest hættan var meðal þeirra sem bjuggu nálægt umferðargötum. 

Samkvæmt BBC er enginn vafi á því að það er skerðing á lífsgæðum að búa við mengun og vart hægt að mæla með því við nokkurn. En besta ráðið til þeirra sem vilja forðast glímuna við heilabilun síðar á lífsleiðinni er að hætta að reykja, hreyfa sig reglulega og borða hollan mat. 

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert