Borði hnetur fyrir 6 mánaða aldur

Að mörgu þarf að huga þegar barni er gefin fyrsta …
Að mörgu þarf að huga þegar barni er gefin fyrsta fæðan með brjóstamjólk. mbl.is/Styrmir Kári

Minni líkur eru á því að þau börn sem taka lýsi frá sex mánaða aldri fái fæðuofnæmi. Lýsi er ríkt af D-vítamíni og omega 3 fitusýrum sem eru taldir verndandi þættir fyrir fæðuofnæmi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, barna- ofnæmis- og ónæmislæknir, kynnti á málþingi um fyrstu fæðu ungbarna; hvað, hvenær og hvers vegna? á Læknadögum. 

Rannsókn á áhrifum lýsis á fæðuofnæmi barna var gerð hjá íslenskum börnum sem voru þátttakendur í EuroPrevall-rannsókninni á fæðuofnæmi sem gerð var í samvinnu við átta önnur Evrópuríki. Niðurstöður verða birtar í vísindatímariti á næstunni.

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, barna- ofnæmis- og ónæmislæknir.
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, barna- ofnæmis- og ónæmislæknir.

 Skoðaður var hópur barna sem tók reglulega lýsi og hins vegar ekki. Um 50% foreldra gáfu börnum sínum lýsi frá því fyrir eða um 6 mánaða aldur og um 20% gáfu ekki lýsi til 15 mánaða aldurs. Í hópnum voru um 1.300 íslensk börn. Af þeim greindust 40 með fæðuofnæmi. Þau börn sem tóku lýsi fyrir og eftir sex mánaða aldur greindust síður með fæðuofnæmi og fæðunæmi. Líkurnar minnkuðu um 50% ef börnin tóku lýsi. „Skortur á D-vítamíni og omega 3 fitusýrum gæti hugsanlega orðið til þess að fólk fái fæðuofnæmi,” segir Sigurveig.

Sigurveig bendir hins vegar á að þrátt fyrir að margar rannsóknir séu samhljóma þessari rannsókn séu niðurstöðurnar ekki alltaf svona skýrar og að gera þurfi fleiri rannsóknir. 

Að mati Sigurveigar eru íslenskir foreldrar í heild duglegir við að gefa börnum sínum lýsi og er það vel. Samkvæmt ráðleggingum um næringu ungbarna frá Embætti landlæknis er mælt með því að börn neyti lýsis  frá sex mánaða aldri en fram að því eiga þau að fá D-dropa. Í ráðleggingunum segir embættið að ekki sé þörf fyrir aðra næringu en brjóstamjólk fram að sex mánaða aldri.

Ef byrjað er að gefa barni jarðhnetur fyrir 6 mánaða …
Ef byrjað er að gefa barni jarðhnetur fyrir 6 mánaða aldur getur það hugsanlega myndi þol fyrir jarðhnetum. mbl.is/Árni Sæberg

Borði viðbótarfæðu fyrir sex mánaða aldur

Í sömu málstofu greindi Kirsten Beyer, barna- og ofnæmislæknir við háskóla í Berlín, frá rannsóknum sínum og annarra á fæðugjöf fyrir sex mánaða aldur. Þær benda til þess að ef byrjað er að gefa barni jarðhnetur fyrir 6 mánaða aldur getur það hugsanlega myndi þol fyrir jarðhnetum. Þetta á sérstaklega við börn sem eru með exem eða óeðlilega húð. Barnið er síður líklegt að fá ofnæmi fyrir jarðhnetum ef þær eru gefnar í gegnum munn en ef þær komast fyrst í snertingu við húð og því er mælt með því að barnið neyti þeirra frekar fyrst. Rannsóknin bendir einnig til þess að það sama eigi við um egg sem eru einnig ofnæmisvaldur.

Niðurstaða hennar er sú að það ætti að byrja gefa barninu það sem fjölskyldan er að borða frá fjögurra til sex mánaða aldri með brjóstamjólkinni sem alltaf er besta fæðan. Það ætti að leyfa því að smakka það sem venjulega er á matarborði fjölskyldunnar. Ef fjölskyldan borðar ekki hnetur dags daglega er ekki mælt sérstaklega með því að börnum sé gefin þessi nýja fæða fyrir sex mánaða aldurinn. Ef barnið er með exem og foreldrar borða egg, jarðhnetur og allt mögulegt mælir dr. Beyer með því að gefa barninu þessar fæðutegundir sem geta mögulega valdið ofnæmi. Það þarf að sjálfsögðu að gefa matinn í því formi sem er öruggt fyrir barnið.

Dr. Beyrer kynnti niðurstöður úr EuroPrevall-rannsókninni sem sýna að á Íslandi greinist nokkuð lágt hlutfall með jarðhnetuofnæmi, miðað við önnur lönd í Evrópu og helst það  í hendur við litla neyslu landsmanna á hnetum. 

Á sama málþingi hélt Beyer einnig erindi sem nefnist: „Getum við afnæmt fyrir fæðu?“ Þar greindi hún frá rannsóknum þar sem vísindamenn hafa náð góðum árangri við að hjálpa fólki að venjast tiltekinni fæðutegund sem það var áður með ofnæmi fyrir.

Það er gert með þeim hætti að sjúklingum er gefin fæðan sem það er með ofnæmi fyrir í örskömmtum og þeir stækkaðir smám saman. Að sögn Sigurveigar gefa þessar rannsóknir fyrirheit um að mögulega verði hægt í framtíðinni að hjálpa fólki við að losna við tiltekið fæðuofnæmi en þessari meðferð en enn aðeins beitt í rannsóknarskyni í Evrópu.

Embætti landlæknis mælir með því að börn neyti brjóstamjólkur fram …
Embætti landlæknis mælir með því að börn neyti brjóstamjólkur fram að 6 mánaða aldri en önnur Evrópuríki mæla með annarri fæðu frá 4 mánaða aldri. mbl.is/Brynjar Gauti

Ekki sömu ráðleggingar

Það stingur í stúf að ekki gilda sömu ráðleggingar milli landa um fyrstu næringu ungbarna. Í löndum utan Norðurlandanna er mælt með því að börn fái fasta fæðu með brjóstamjólk frá fjögurra til sex mánaða aldri. Ráðleggingar um fyrstu fæðu ungbarna sem eru gefnar hér út af Embætti landlæknis eru unnar í samvinnu við aðrar Norðurlandaþjóðir. Á síðasta ári gaf embættið út nýjar ráðleggingar um fæðu ungbarna.  

Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði, ræddi um ráðleggingar varðandi næringu ungbarna og velti því upp hvort þær væru að breytast. Hún lagði áherslu á að slíkar breytingar þyrftu að taka langan tíma og ættu að byggjast á vel grunduðum rannsóknum en Ísland hefur verið samferða öðrum löndum á Norðurlöndum í þessu máli.  Þar kom fram að þrátt fyrir að ráðleggingum annarra ríkja í Evrópu hefði verið breytt á þá leið að börn megi byrja að neyta fæðu fyrr var ákveðið að breyta ekki þeim íslensku. 

Aðspurð hvort tvískinnungur milli reglnanna sé ekki til þess fallinn að foreldrar gefi börnum sínum fæðu fyrir sex mánaða aldur, bendir Sigurveig á að þetta séu ráðleggingar en ekki reglur. Foreldrum er því í sjálfsvald sett hvernig þeir nýta þessar upplýsingar og að stundum séu börnin tilbúin að fara að borða aðra fæðu fyrir 6 mánaða aldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert