Áhugi á himingeimnum að aukast

Sævar Helgi Bragason bendir áhugasömum á undur himingeimsins.
Sævar Helgi Bragason bendir áhugasömum á undur himingeimsins. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Að minnsta kosti um 200 til 300 manns mættu í gönguferð sem helguð var himingeimnum á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna í Kaldársel í Hafnarfirði í gærkvöldi. Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðimiðlari og kennari við Háskóla Íslands, fræddi fólkið og svaraði spurningum um norðurljósin, stjörnurnar og vetrarbrautina. 

„Það mættu mjög margir og þetta gekk rosalega vel,“ segir Sævar Helgi. Hann segir áhuga fólks á himingeiminum hafa aukist talsvert síðustu ár. Fólk á öllum aldri mætti í gönguna allt frá þriggja ára til áttræðs, að sögn Sævars. Stór hópur fólks mætti með handsjónauka sem er tilvalinn til stjörnuskoðunar.  

Aðstæður voru prýðilegar í gærkvöldi enda heiðskírt og örlítil norðurljós létu sjá sig. Spurður hvenær næsta ferð verði farin bendir Sævar á veðurspána. „Það er of snemmt að segja til um því það fer eftir veðri. Vonandi fljótlega í kringum fullt tungl,“ segir Sævar. 

Þetta er þriðja árið í röð sem Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna bjóða upp á þessar ferðir með Sævari. Sífellt fleiri fara í ferðirnar.  

Um 200 til 300 manns mættu í stjörnuskoðun.
Um 200 til 300 manns mættu í stjörnuskoðun. Ljósmynd/Háskóli Íslands
Það er betra að vera vel dúðaður í stjörnuskoðun.
Það er betra að vera vel dúðaður í stjörnuskoðun. Ljósmynd/Háskóli Íslands
Margir mættu með handsjónauka.
Margir mættu með handsjónauka. Ljósmynd/Háskóli Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert