Skammir letja frekar en hvetja

Fólk sem glímir við offitu þarf ekki að heyra það …
Fólk sem glímir við offitu þarf ekki að heyra það frá öðrum að það sé feitt. Það getur beinlínis verið skaðlegt.

Að skammast í fólki yfir ofþyngd þess eða gera grín að því, letur fremur en hvetur það til að léttast. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Háskóla í Pennsylvaníu. Stöðugar aðfinnslur geta aukið hættu á sjúkdómum hjá fólki sem glímir við ofþyngd eða offitu.

Fólk sem er skammað vegna þyngdar sinnar er líklegra til að einangra sig og mæta t.d. ekki í ræktina. Það er einnig líklegra til að leita huggunar í mat, að sögn Rebeccu Pearl, aðalhöfundar rannsóknarinnar. Hún segir að þeir sem þjáist af offitu glími einnig við fordóma um að þeir séu óhæfir, latir, skorti viljastyrk og séu óaðlaðandi.

Annar höfundur rannsóknarinnar Tom Wadden, segir að það að skammast í fólki sem er of feitt hvetji það ekki til þess að léttast. Hann hvetur heilbrigðisstarfsfólk, fjölmiðla og almenning allan til að endurskoða nálgun sína og vera meðvitað um fordómafull skilaboð sem feitu fólki eru send.

159 fullorðnir einstaklingar sem glíma við offitu tóku þátt í rannsókninni. Fyrir þá voru m.a. lagðir spurningalistar til að kanna geðheilbrigði þeirra. 

Pearl segir að niðurstaðan sé mjög umhugsunarverð. Að skammast í feitu fólki vegna þyngdar þeirra er ekki aðeins ónærgætið heldur getur beinlínis verið hættulegt líkamlegri og andlegri heilsu fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert