Vélmenni annist aldraða á vistheimilum

Pepper-vélmenni. Vonast er til að nýja vélmennið muni reynast eldri …
Pepper-vélmenni. Vonast er til að nýja vélmennið muni reynast eldri borgurum vel með því að veita þeim afþreyingu og hjálpa þeim að tengjast umheiminum og fjölskyldu sinni betur í gegnum notkun snjalltækja. Skjáskot/Softbanks Robotics

Vélmenni sem búa yfir mannlegum eiginleikum á borð við menningarvitund og almenna kurteisi gætu í framtíðinni nýst við umönnun aldraðra. Fréttavefur BBC segir alþjóðlegt teymi vísindamanna nú vinna að þróun vélmenna sem geti aðstoðað við umönnun á dvalarheimilum aldraðra og á vistheimilum.

Vélmennunum er ætlað að sinna almennum verkefnum á borð við lyfjagjöf, sem og að veita íbúum vistheimilanna félagsskap. Segja vísindamennirnir að með þessu móti megi draga úr álagi á starfsfólk vistheimila og sjúkrahúsa.

Vísindamenn við háskólana í Middlesex og Bedfordshire vinna nú að smíði vélmennanna með fjárstuðningi frá Evrópusambandinu og japönskum stjórnvöldum. Vélmennin  hafa fengið nafnið Pepper-vélmenni og er vonast til að fyrstu útgáfurnar verði tilbúnar innan þriggja ára. Hægt á að vera að forrita hvert vélmenni sérstaklega til að sinna þörfum ákveðins einstaklings.

„Eftir því sem fólk lifir lengur því meira er álagið á heilbrigðiskerfið,“ hefur BBC eftir prófessor Irenu Papadopoulos, sérfræðingi í hjúkrun sjúklinga frá ólíkum menningarsvæðum.

„Bara í Bretlandi eru 15.000 manns yfir 100 ára aldri og þessi tala á bara eftir að hækka.“ Vélmenni sem geta aðstoðað við umönnun aldraðra á sjúkrahúsum og vistheimilum geti bætt þjónustu og gert fólki kleift að dvelja lengur heima. „Þetta er ekki spurning um að vélmennin komi í staðinn fyrir mannlega aðstoð, heldur frekar að auka og bæta við þá aðstoð sem nú er veitt,“ sagði Papadopoulos.

Pepper-vélmenni eru framleidd af Softbank Robotics í Japan og eru nú þegar til á þúsundum japanskra heimila.

Amit Humar Pandey, stjórnandi þróunarsviðs fyrirtækisins, segir fyrirtækið hafa viljað skapa heim þar sem menn og vélmenni gætu lifað í sátt og samlyndi.

Vonast er til að nýja vélmennið muni reynast eldri borgurum vel með því að veita þeim afþreyingu og hjálpa þeim að tengjast umheiminum og fjölskyldu sinni betur í gegnum notkun snjalltækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert