Gel sem hindrar sáðfrumur í sáðrás

Smokkar eru ein helsta getnaðarvörn sem karlar nota. Hér er …
Smokkar eru ein helsta getnaðarvörn sem karlar nota. Hér er verið að prófa gæði nokkurra slíkra. AFP

Tilraunir með nýja getnaðarvörn fyrir karlmenn, gel sem sprautað er í sáðrás og hindrar för sáðfruma í liminn, hafa reynst árangursríkar. Þær hafa þó enn ekki verið gerðar á karlmönnum, aðeins öpum.

Gangi tilraunir á mönnum vel verður Vasalgel, eins og vörnin er kölluð, fyrsta getnaðarvörnin fyrir karla sem kemur á markað í áratugi. 

Vasalgel hefur verið prófað á öpum í tvö ár. Niðurstöður rannsóknanna voru kynntar í vísindatímaritinu Basic and Clinical Andrology nýverið. Samkvæmt þeim er gelið árangursríkt og öruggt. Þeir sem að rannsóknunum standa vonast til þess að geta hafið prófanir á gelinu á mönnum innan fárra ára. Gangi þær vel vonast þeir til að fá leyfi til að markaðssetja getnaðarvörnina.

Gelið hefur verið prófað á öpum og reyndist árangursríkt.
Gelið hefur verið prófað á öpum og reyndist árangursríkt. AFP

Í umfjöllun um málið í BBC segir að í augnablikinu geti karlar aðallega nýtt sér tvær leiðir til að forðast getnað: Smokka og ófrjósemisaðgerð. 

Vasalgel virkar í raun á svipaðan máta og ófrjósemisaðgerð þar sem klippt er á sáðrásir eða þær klemmdar aftur. Gelið hindrar að sáðfrumur komist út í getnaðarliminn með því stífla för þeirra. Vísindamennirnir telja að hægt verði svo að fjarlægja gelið, kjósi karlmaðurinn að gera svo síðar. Sá angi meðferðarinnar hefur þegar verið reyndur á kanínum. Enn á eftir að kanna árangurinn í öpum og karlmönnum.

Í frétt BBC segir að hugmyndafræðin að baki getnaðarvörninni sé ekki ný af nálinni. Þegar er byrjað að kanna svipaða aðferð á Indlandi. Ólíkt efninu sem þar er nú reynt skaðar Vasalgel ekki sáðfrumurnar, hindrar aðeins flæði þeirra. Gelið leyfir öðrum efnum sæðisins að flæða óhindrað í liminn.

Vísindamennirnir, sem starfa við Háskólann í Kaliforníu, segja að til að sprauta gelinu inn í sáðrásina þurfi að svæfa viðkomandi. Sömu sögu er að segja ef losa á gelið úr rásinni. Aðgerðin er því ekki áhættulaus.

Verður að vera afturkræf

Prófessor við Háskólann í Sheffield segir í samtali við BBC að til að karlmenn sjái ávinning af því að velja gelið frekar en ófrjósemisaðgerð verði að vera hægt að fjarlægja það, með öðrum orðum, aðgerðin verði að vera afturkræf. Hann segir að lyfjafyrirtækin hafi hingað til ekki séð hagnaðarvon í því að framleiða getnaðarvarnir sem þessar fyrir karlmenn.

Fyrirtækið sem stendur að baki rannsókninni á gelinu heitir Parsemus Foundation og hefur þurft að sækja um styrki og safna fé til að framkvæma hana. „Ég hef trú á að það sé markaður fyrir nýja getnaðarvörn fyrir karla en frekari tilraunir á öryggi eru nauðsynlegar áður en við getum fullyrt að þetta sé árangursríkt,“ segir prófessorinn Allan Pacey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert