Tæknin brýtur tungumálamúr

Kristján Logason leiðsðgumaður ásamt hópi viðskiptavina.
Kristján Logason leiðsðgumaður ásamt hópi viðskiptavina.

Kristján Logason, sjálfstætt starfandi leiðsögumaður hjá Amazing Iceland, hefur nýtt sér snjallsímaforrit sem þýðir ensku jafnóðum á öll helstu tungumál. Kristján hefur verið að keyra um suðurströnd Íslands með ferðamenn í vetur og notar þýðingarforritið Microsoft Translator Live til að brjóta tungumálamúra sem koma upp í vinnunni. Hann komst í kynni við forritið í gegnum einn af höfundum þess.

„Einn af höfundum forritsins er gamall bréfavinur vinkonu okkar hjónanna, hefur skrifast á við hana í mörg ár. Hann kom til Íslands í annað skiptið í haust og kynntist ég honum þá. Hann kynnti mér þetta forrit og við prófuðum það,“ segir Kristján.

Kristján Logason.
Kristján Logason.

Einstaklega auðvelt í notkun

Forritið virkar þannig að tveir aðilar tengja símana sína saman með strikamerki eða númeri. Þegar því er lokið geta þeir talað í sinn síma og hann þýðir á það tungumál sem hinn hefur valið. Þá geta fleiri en einn verið með í samræðunum. Kristján segir þó að það sé ekki ennþá hægt að tala íslensku en enskan virki vel. „Þú skráir þig inn á þínu tungumáli, því miður er ekki hægt að hafa íslenskuna ennþá þannig að ég nota enskuna. Þá getur viðmælandinn notað sitt tungumál hvort sem það er kínverska, þýska, spænska eða franska,“ segir Kristján. Þýðingarvélar sem þessi byggjast á gamalli tækni en eru sífellt að verða betri. Hópspjall með mörgum tungumálum er hins vegar nýjung af hálfu Microsoft. Þegar Kristján prufukeyrði forritið í fyrra talaði hópur saman á ensku, frönsku og þýsku. Kristján segir forritið hjálpa sér mikið þegar tungumálaerfiðleikar séu til staðar. „Þegar upp koma atriði sem þarf að útskýra og málskilningur er lítill fyrir, þá hjálpar þetta.“

Fjörur og fjöll flækjast fyrir

Þá er forritið ekki fullkomið en jarðfræðiheiti ásamt íslenskum nöfnum á fjörum og fjöllum flækjast mikið fyrir því ennþá.

„Þetta er ekki fullkomið, annars vegar þarf framburðurinn að vera skýr, getur verið mismunandi eftir því hver er að tala og síðan þýðast því miður ekki íslensk heiti. Forritið getur alveg farið í flækju,“ segir Kristján en búnaðurinn er gervigreindarforrit og kemur til með að þróast jafnóðum í notkun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert