Of þreytt fyrir kynlíf

Valentínusardagurinn er í dag.
Valentínusardagurinn er í dag. AFP

Kynlíf virðist vera aukaatriði þegar kemur að hjónabandi í Japan ef marka má nýja könnun þar í landi meðal hjóna. Í ljós kom að um það bil helmingur þeirra hafði ekki stundað kynlíf í meira en mánuð.

Valentínusardagurinn er í dag og á fáum stöðum í heiminum er hann tekinn jafnalvarlega og í Japan. Í ár er gert ráð fyrir því að Japanar muni eyða 138,5 milljörðum jena, rúmlega 123 milljörðum króna, í alls konar varning tengdan ástinni, svo sem blóm og súkkulaði. 

Samkvæmt frétt Guardian leiddi könnunin í ljós að ekki stóð til að stunda kynlíf í þessum hjónaböndum í náinni framtíð. Alls tóku um þrjú þúsund manns þátt í könnuninni en þátttakendur eru á aldrinum 16-49 ára. 47% þeirra sem voru í hjónabandi og tóku þátt sögðust búa í kynlífslausu hjónabandi og eru þetta 2,6% fleiri en í síðustu könnun sem var gerð árið 2014. Ef litið er til fyrstu rannsóknar, sem var gerð árið 2004, hefur hlutfallið breyst enn meira því þá voru 31,9% hjóna í kynlífslausum hjónaböndum.

Í verslun í Tókýó.
Í verslun í Tókýó. AFP

Talið er að ein ástæða þessa sé að fólk finni einfaldlega ekki tíma til þess að stunda kynlíf líkt og víðar í iðnvæddum heimi. Fólk um og yfir fertugt stundaði sjaldnast kynlíf en á þeim aldri er álagið mest á fólk vegna vinnu og fjölskyldu. Um 22% kvenna sögðu að kynlíf væri bara til vandræða. 

35,2% kvæntra manna sögðu að þeir væri svo úrvinda þegar þeir kæmu úr vinnu að þeir gætu ekki stundað kynlíf. Aðrir sögðust vera hættir að horfa á eiginkonur sínar sem kynverur og að kynlífið hefði fjarað út eftir að börnin fæddust.

Frétt Guardian

AFP
Álag í vinnu og fjölskyldu hefur þau áhrif að fólk …
Álag í vinnu og fjölskyldu hefur þau áhrif að fólk hefur hreinlega ekki orku til þess að stunda kynlíf. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert