Ekki eintómur dans á rósum að vinna heima

Rannsóknin sýndi9 að bein samskipti við vinnufélagana eru þörf en …
Rannsóknin sýndi9 að bein samskipti við vinnufélagana eru þörf en ennfremur að stundum þyrfti fólk næði og að vera útaf fyrir sig til að klára verkefni. AFP

Að vinna utan skrifstofunnar getur minnkað ferðalög og truflun frá samstarfsfólki en það getur einnig haft slæmar afleiðingar s.s. að fá ekki yfirvinnu greidda, aukið streitu og valdið svefnleysi. Þetta er niðurstaða rannsóknar Vinnumálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

Á seinni árum hafa sífellt fleiri kosið að mæta ekki á vinnustaðinn sinn heldur vinna að heiman eða annars staðar frá. Þetta er oft tæknilega gerlegt en getur haft neikvæð áhrif á heilsu fólks.

Niðurstöðurnar voru fengnar úr gögnum frá fimmtán löndum. Rannsóknin leiddi í ljós að framleiðni er meiri hjá þeim sem vinna utan vinnustaðarins en einnig að fyrirkomulagið getur haft þær afleiðingar að fólk vinnur lengur og að álagið á þá verði meira en aðra starfsmenn.

Í rannsókninni var rannsóknarhópnum skipt í þrennt: Þeir sem vinna yfirleitt að heiman, þeir sem vinna á ýmsum stöðum og þeir sem skipta vinnutímanum milli vinnustaðarins og annarra staða. 

Starfsfólk í öllum þessum hópum upplifði meiri streitu og oftar svefnleysi en þeir sem unnu alfarið á skrifstofunni. 41% þeirra sem unnu utan skrifstofunnar sögðust finna fyrir streitu á meðan hlutfallið var 25% meðal þeirra sem unnu alfarið á vinnustaðnum.

42% þeirra sem unnu alltaf heima eða á ýmsum stöðum utan skrifstofunnar, sögðust þjást af svefnleysi. 29% þeirra sem unnu á vinnustaðnum þjáðust af svefnleysi.

Einn höfunda rannsóknarinnar hvetur vinnuveitendur til að leyfa starfsfólki að vinna utan skrifstofunnar að hluta til. „Að vinna 2-3 daga í viku að heiman virðist vera gráupplagt,“ sagði Jon Messenger er hann kynnti rannsóknina í Genf.

Þá sýndi rannsóknin að bein samskipti við vinnufélagana væru þörf en ennfremur að stundum þyrfti fólk næði og að vera útaf fyrir sig til að klára verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert